Sá sem kemur til Rússlands furðar sig á því hvað þjóðin er seinþreytt til vandræða. Manni koma í hug orð eins og sinnuleysi og doði.
Já – og vodka.
Það tekur langan tíma að laga sárin eftir kommúnistatímann – þegar hugarfarsspilling og lygar urðu norm í samfélaginu.
En nú gengu Vladimír Pútín og klíkan sem fylgir honum að málum aðeins of langt. Upppvíst hefur orðið um stórfelld kosningasvik – Mikhail Gorbatsjov segir að réttast væri að endurtaka kosningarnar í heild sinni. Allir vita að kosningarnar voru ekki frjálsar né réttlátar.
Það er bara spurning hvað Rússar sætta sig við.
Maður dáist að kjarki þeirra sem þora að fara út á göturnar að mótmæla. Það má búast við því að þeir verði ofsóttir á ýmsan hátt í því samblandi lögreglu- og mafíu- og auðræðis sem ríkir í landinu.
Það er búið að handtaka þúsund manns, þar á meðal andspyrnuforingjann Andrei Navalnij.
Það er spurning hvaða áhrif þetta kann að hafa á Pútín og lepp hans Medjedev – svo fjölmenn mótmæli hafa ekki verið í Rússlandi síðan kommúnisminn féll 1990.