Það er mikið talað um hvað ríkisstjórnin sé sundurlaus. Alls kyns upphlaup setja mark sitt á líf hennar.
En henni verður líka ágengt í sumu. Það má jafnvel telja það nokkuð afrek að koma í gegn fjárlögum á þessum tíma – og það nokkuð átakalaust.
Það hefur verið furðu lítill hiti í umræðunni um fjárlögin þennan fyrripart vetrar.
Þetta segir manni að ríkisstjórnin mun líklega sitja út kjörtímabilið – það er alveg óhætt að spá því.
ESB umsóknin mun malla áfram, en lyktir þess máls verða ekki fyrr en eftir næstu kosningar. Þá gæti hið pólitíska landslag hafa breyst verulega.
En hún mun ekki geta unnið mikla sigra í sjávarútvegsmálunum – má teljast góð ef tekst að hækka auðlindarentuna nokkuð. Það stefnumál er nánast fyrir borð.
Alþingi er að fara í jólafrí og það eru engin sérstök hitamál sem blasa við síðustu dagana fyrir fríið. Það er svosem ekki óhugsandi að einhver ráðherrakapall fari í gang um áramótin – það er þá spurning hversu áríðandi er fyrir Jóhönnum og Steingrím að losna við Jón Bjarnason og Árna Pál.
Ég myndi samt ekki veðja miklu á að það gerist – það er varla ástæða til að rugga bátnum þegar blasir við nokkuð lygn sjór.