Það er ljóst að stjórnmálaflokkarnir vita ekki sitt rjúkandi ráð.
Hvernig á að reka kosningabaráttu þegar kjósendur eru með ógeð að flokkunum?
Hvar á að byrja?
Þá er kannski þægilegast að halda grillpartí eða fara í sundferð í félagsskap annarra flokksmanna.
Hvernig er hægt að svara Besta flokknum? Sem er stærri en Samfylkingin, hérumbil jafn stór og Sjálfstæðisflokkurinn samkvæmt skoðanakönnunum.
Sjálfstæðismenn virðast ætla að keyra út í eitt á Hönnu Birnu og ímynd hennar sem leiðtoga – þjóðstjórnarútspilið virðist ekki ætla að virka – en Samfylkingin sér von í að tefla fram frambjóðendum sínum sem ekki hafa verið í flokkapólitík áður, þeim Hjálmari Sveinssyni útvarpsmanni og Bjarna Karlssyni presti.
En meðan flokkarnir eru í upplausn er voða erfitt að koma af stað umræðu um sveitarstjórnarmál. Frambjóðendur eru eins og álfar út úr hól í þessu ástandi.