Það er ekki langt síðan að Jón Ásgeir Jóhannesson var fastagestur í forsetaboðum. Forseti Íslands sníkti far með einkaflugvélum hans og vina hans.
Jón var semsagt í veislum þess sem hefur verið kallað „betra“ fólkið.
Nú er hann búinn að missa allt út úr höndunum á sér, að minnsta kosti í bili, og síðustu fréttir herma að eignir hans á Íslandi hafi verið kyrrsettar.
Það breytir svosem ekki miklu, því menn af þessu tagi passa upp á að setja ekki mikið á kennitöluna sina.
En Jón á ennþá fjölmiðlafyrirtækið 365 – og það virðist vera eina leið hans inn í einhvers konar samkvæmislíf núorðið.
Hann er sjálfur farinn að fara í leiðangra til að kaupa myndefni fyrir sjónvarpsstöðvar sínar, og svo segir DV frá því að hann ætli að skella sér á úrslit American Idol. Þar er hann væntanlega í krafti stöðu sinnar sem eigandi 365.
En þetta er hátt fall. Úr fínustu forsetaveislum í úrslit Idolsins.
Því sú samkoma verður seint talin vera crème de la crème.