fbpx
Fimmtudagur 21.ágúst 2025
Eyjan

26. grein Stjórnarskrárinnar

Egill Helgason
Laugardaginn 2. janúar 2010 12:07

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mikil er skömm þeirra íslenskra stjórnmálamanna sem hafa ekki getað komið sér saman um breytingar á stjórnaskrá. Þetta hefur verið reynt í mörgum stjórnarskrárnefndum. Nú stöndum við frammi fyrir því að gamall klækjarefur úr pólitíkinni, Ólafur Ragnar Grímsson, er í raun að móta embættið samkvæmt sínum skilningi og hentugleika.

Alveg burtséð frá því hvort hann skrifar undir Icesave lög númer 2 í dag, þá hljóta menn að fara að setjast niður af alvöru og setja inn í stjórnarskrá skýr ákvæði um þetta embætti.

Fyrri forsetar hafa talið að þeir gætu ekki notað málskotsrétt þennan. Nú er hugsanlegt að Ólafur noti hann í annað sinn.

Hvað með næsta forseta? Á honum að vera það í sjálfsvald sett hvort hann fylgir hefð Kristjáns Eldjárns og Vigdísar eða Ólafs Ragnars.

Það er eiginlega vandséð að hægt sé að ganga til forsetakosninga með þetta í fullkominni óvissu. Þetta er algjör eðlisbreyting á því hvernig embættið hefur verið, og það er rétt hjá Baldri Kristjánssyni að nú virðast bæði hægri og vinstri menn hafa samþykkt þessa breytingu. Prinsípfesta íslenskra stjórnmálamanna er slík að þeir eru með eða á móti málskotsréttinum eftir því hvort það hentar stundarhagsmunum þeirra.

Þetta er eitt af því sem þarf að taka fyrir í opinni allsherjarendurskoðun á íslensku stjórnarskránni. Þessi krafa var mjög hávær á tíma búsáhaldabyltingarinnar, en það er með þetta eins og annað, hefur koðnað niður í hefðbundna flokkapólitík.

Lögfræðingur sendi mér þessa ábendingu, en tók um leið fram eftirfarandi: „Sjálfur vona ég reyndar að forsetinn undirriti ekki. Það er í mínum huga prinsippmál að íslenskur almenningur taki ekki á sig að borga skuldir einkafyrirtækis, þar sem sú skylda er háð verulegri lagalegri óvissu skv. Evrópurétti.“

26. grein Stjórnarskrárinnar:

Ef Alþingi hefur samþykkt lagafrumvarp, skal það lagt fyrir forseta lýðveldisins til staðfestingar eigi síðar en tveim vikum eftir að það var samþykkt, og veitir staðfestingin því lagagildi. Nú synjar forseti lagafrumvarpi staðfestingar, og fær það þó engu að síður lagagildi, en leggja skal það þá svo fljótt sem kostur er undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar með leynilegri atkvæðagreiðslu. Lögin falla úr gildi, ef samþykkis er synjað, en ella halda þau gildi sínu.

Þessi 26. gr. er þvílíkt skrípi, að það er með ólíkindum að menn skuli ekki fyrir löngu vera búnir að breyta þessu ákvæði.

Skv. orðanna hljóðan taka lögin gildi, jafnvel þó svo forseti staðfesti þau ekki.

Aftur á móti þarf að birta íslensk lög i Stjórnartíðindum til að þau öðilst gildi (sbr. 27. gr.).

Sú atbuðarás er tæknilega möguleg að forseti neiti að undirrita, en ríkisstjórn láti engu að síður birta lögin þ.a. þau öðlist gildi.

Þau falla svo úr gildi sé þeim hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu. En þau eru í galdi fram til þess og þá yrði ríkisábyrgðin þegar komin til framkvæmda – og hæpið að ríki geti einhliða afturkallað ríkisábyrgð sína sem á rót í samningi við erlent ríki og byggir á lögum sem hafa (tímabundið) tekið gildi.

Fyrst og fremst er 26. gr. svo meingölluð að það er ekki á henni hægt að byggja. Og það er til marks um algeran sauðshátt íslensku lögfræðingastéttarinnar að ekki skuli hafa verið fjallað um þessi álitaefni ítarlega á opinberum vettvangi, nú í aðdraganda þess að „Icesave-lögin“ voru samþykkt.

Til að forðast meiriháttar stjórnlagakreppu verður forsetinn því að skrifa undir. Annað væri bara pópúlismi, sem er forsetanum ekki sæmandi sem þjóðhöfðingja.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Sjálfstæðisflokkurinn: Innistæðulausir frasar – ætti heldur að hlusta en tala

Sjálfstæðisflokkurinn: Innistæðulausir frasar – ætti heldur að hlusta en tala
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Þorsteinn Pálsson: Hvers vegna voru tillögur um afturköllun umsóknar svæfðar í tíð Sigmundar Davíðs og Guðlaugs Þórs?

Þorsteinn Pálsson: Hvers vegna voru tillögur um afturköllun umsóknar svæfðar í tíð Sigmundar Davíðs og Guðlaugs Þórs?
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Málþæfður minnihluti þarf að átta sig

Málþæfður minnihluti þarf að átta sig
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Öldungurinn sem sá ekki vandann

Svarthöfði skrifar: Öldungurinn sem sá ekki vandann