Þjóðstjórnarhugmyndir Hönnu Birnu Kristjánsdóttur vekja athygli.
Það er þá spurning hvað er átt við þessu – mun einfaldur meirihluti ráða í málum í borginni og ekki flokkadrættirnir?
Hvernig er með borgarstjóraembættið – yrði ráðinn utanaðkomandi borgarstjóri eða myndi það lenda hjá flokknum sem fær mesta fylgið?
Formennska í nefndum – yrði henni dreift á milli allra flokka og framboðsafla sem sitja í borgarstjórninni?
Og maður hlýtur að spyrja – af því að nú er kortér í kosningar – hvort þetta sé einhvers konar pólitísk brella? Hvernig ætla hinir flokkarnir að bregðast við þessu?
Að því sögðu: Ég hef lengi haldið því fram að flokkanir ættu ekki að tröllríða stjórnmálunum í borginni. Stjórnmálin þar ættu frekar að einkennast af því að gott fólk, virkir borgarar, úr hvaða flokki sem er geti unnið saman að framförum og velferð, enda eru borgarpólitíkusar núorðið sammála um flesta hluti..
Flokkapólitíkin í Reykjavík hefur frekar virkað eins og boð í spillingu og það sem er kallað verktakalýðræði – á það hefur til dæmis verið bent að styrkjakóngar stjórnmálanna komi margir úr borginni, enda er það einmitt þar sem návígið við framkvæmdir er mest.