fbpx
Miðvikudagur 30.júlí 2025
Eyjan

Hvað er hægt að kjósa?

Egill Helgason
Föstudaginn 30. apríl 2010 08:05

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kjósandi í Hafnarfirði skrifar þessa grein:

— — —

Venjulega hef ég ekki átt í miklum vandræðum með að kjósa í bæjarstjórn Hafnarfjarðar, en þegar ég fékk spurninguna „Hvað á að kjósa?“ þá fylltist ég miklum valkvíða og hripaði í snatri niður smá hugleiðingar, sem eru hér fyrir neðan, af því tilefni. Og samkvæmt þeirri skoðanakönnun sem birtist í dag þá virðist ég síður en svo einn á báti.

Ég sakna mikið uppbyggilegrar umræðu um framtíð höfuðborgarsvæðisins, og eins og þú hefur oft komið inn á þá eru skipulagsmálin í miklum ólestri í Reykjavík, en þetta á við svo víða og höfum við Hafnfirðingar heldur betur ekki farið varhluta af ruglinu og mátt sætta okkur við ótrúlegar framkvæmdir á undanförnum árum. Fjármálin og stjórnsýslan þyrfti svo sannarlega á aðstoð rannsóknanefndar að halda sérstaklega þegar kemur að siðferði.

Þetta segir Óli Harðar um landsstjórnina, er þetta eitthvað öðruvísi hjá sveitarfélögunum, ég held að það sé töluvert verra:

·         Ráðuneytin voru of mörg og of veik

·         Fyrirgreiðslustjórnmál sem einkennast af því að ekki er farið eftir settum reglum. Teknar eru geðþóttaákvarðanir á pólitískum forsendum.

·         Pólitískar embættisveitingar sem hafa verið landlægur vandi í íslensku stjórnkerfi síðan á tímum Hannesar Hafstein.

·         Fjármál stjórnmálaflokka en um þau giltu engar reglur fyrr en árið 2007.

·         Skortur á umræðuhefð í íslenskum stjórnmálum. Stjórnmálaumræða á Íslandi snýst meira um stóryrði, skæting, útúrsnúninga og aulabrandara í stað rökrænnar umræðu.

·         Virðingarleysi fyrir rökstuðningi og áliti sérfræðinga. Stjórnmálamenn hafa tilhneigingu til að saka fræðimenn um að ganga erinda flokka eða hafa annarleg sjónarmið þegar þeir stíga fram með gagnrýni sína. Þá telja stjórnmálamenn rökstuðning fyrir sínum ákvörðunum sínum ekki skipta máli, heldur kokka þeir hann upp eftir þeirra ákvörðun.

Í tilefni spurningarinnar: Heyrðu hvað á að kjósa?

Ég verð að játa að ég veit ekki mitt rjúkandi ráð. Ég get bara ekki með nokkru móti komist að niðurstöðu, að skila auðu er slæm niðurstaða í mínum huga.

Það er í raun óskiljanlegt hvernig fólk sem sóttist eftir mikilli ábyrgð fyrir bæinn hefur gjörsamlega klúðrað málum án þess að líta nokkurn tímann um öxl og áttað sig á því að þessi ábyrgð væri þeim kannski ofviða. Skattbyrði okkar Hafnfirðinga hefur lengi verið meiri en annarra og kemur til með að vera enn meiri um ókomna framtíð og bæjarfulltrúarnir okkar bara bjóða sig áfram fram eins og ekkert hafi gerst og þeim sé einum treystandi til að koma okkur út úr þessu klúðri.

Nú halda sjálfsagt Sjálfstæðismenn að ég sé að hrauna yfir Samfylkinguna en þetta er ekki svo einfalt, Sjálfstæðisflokkurinn í Hafnarfirði er sami flokkur í mínum huga og Sjálfstæðisflokkur á landsvísu og þar hafa menn ekki enn þorað að viðurkenna hlut sinn í heimsins stærsta klúðri. Maður varð nú heldur ekki ýkja mikið var við að Sjálfstæðisflokkurinn eða aðrir í bæjarstjórn reyndu að koma liðinu í Samfylkingunni á rétta braut.

Það er í sjálfum sér ekkert við því að gera að einn og einn klúðri sínum fjármálum, það er alltaf að gerast, en þegar fulltrúar okkar klúðra fjármálum bæjarins og geta þannig sett framtíð allra bæjarbúa í óvissu þá er eitthvað að.

Nú eru okkar fulltrúar búnir að selja allar verðmætustu eignir bæjarins, alla vega þær sem einhver kaupandi var að og þeir eru búnir að veðsetja framtíðartekjur áratugi fram í tímann.

Það væri t.d. forvitnilegt að fá að sjá forsendur ákvarðanatöku fyrir öllu þessu landi sem er búið að skipuleggja og undirbúa fyrir byggð, við hvaða íbúaþróunartölur var miðað, hvernig leit business-planið út? Það þýðir nú lítið að fela siga á bak við bankahrun hvað þetta varðar, fólk sem á að búa í þessum hverfum verður ekki til í bönkum.

Það er nokkuð ljóst að flest sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eru búin að klúðra skipulags- og fjármálum stórkostlega og fyrir okkur íbúana bætist þetta klúður ofan  á stóra klúðrið, eins og það sé ekki nóg á kljást við það.

Nú er þjóðremban að ná tökum á mörgum landanum og þar mætast hægri menn og vinstri menn í faðmlögum eins geðfellt og það nú er. Svipað hugarfar á sér stað þegar sameining sveitarfélaga ber á góma. Það er í sjálfum sér með ólíkindum að það þurfi sjöfalda stjórn til að halda utan um rekstur þessara sveitarfélaga sem mynda höfuðborgarkjarnann. Hver þorir að ríða á vaðið og setja sameiningu höfuðborgarsvæðisins á stefnukránna til hagsbóta fyrir alla íbúana?

Það tekur mörg ár að leiðrétta skipulags- og fjármálakúður síðustu ára og það verður ekki gert nema með sameiningu og alvöru sparnaði. Af hverju ekki að spara í stjórnun sveitarfélaganna í stað þess að djöflast alltaf á sömu stöðunum eins og t.d. í velferðar- og menntamálum. Hvað höfum við með alla þessa stjórnsýslu á öllum þessum stöðum að gera?

Nú þarf að fara nýjar leiðir, en því miður er ekki að sjá annað en að flokkarnir og liðið þeirra ætli að vera í nákvæmlega sömu hjólförunum og reyna að kenna hver öðrum um ófarir liðinna ára og þakka sér fyrir það sem vel er gert án þess nokkurn tímann að gera tilraun til að koma með lausnir og alvöru framtíðarsýn.

Sjálfstæðismenn hamast með 40 ára gamla nýsköpun og sjá álver og virkjanir í hyllingum sem allsherjarlausn, maður bara spyr hvenær ætla þeir að nálgast nútímann, þeir þurfa nú ekki að taka íhaldsnafnbótina svona bókstaflega. Samfylkingin hangir bara á valdastólunum eins og hundur á roði og finnur engin verðugri verkefni en að halda áfram með sama liðið og VG þeir eru nú því miður bara meira á móti en með nokkrum sköpuðum hlut og ekki þarf maður nú að hafa áhyggjur af Framsókn hér í bæ.

Hvar er fólkið sem hægt er að kjósa, ég get bara ekki með nokkru móti komið auga á það.

Vinsamlegast gefið ykkur fram.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Högg í maga United
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Brynhildur Guðmundsdóttir tekur við sem forstjóri Daga hf.

Brynhildur Guðmundsdóttir tekur við sem forstjóri Daga hf.
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Svarthöfði skrifar: Er ekki allt í lagi með ykkur andlega, stjórnendur RÚV?

Svarthöfði skrifar: Er ekki allt í lagi með ykkur andlega, stjórnendur RÚV?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Segir hagsmunaskráningu þingmanna gagnslausa í núverandi mynd – „Eins og þeim finnist siðferðisleg viðmið óþörf“

Segir hagsmunaskráningu þingmanna gagnslausa í núverandi mynd – „Eins og þeim finnist siðferðisleg viðmið óþörf“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sigmar Guðmundsson: Stjórnarandstaðan á erfitt með að sætta sig við nýjan veruleika í íslenskum stjórnmálum

Sigmar Guðmundsson: Stjórnarandstaðan á erfitt með að sætta sig við nýjan veruleika í íslenskum stjórnmálum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sigmar Guðmundsson: Stjórnarandstaðan reyndi ekki að koma neinum málum í gegn – var bara á móti öllu

Sigmar Guðmundsson: Stjórnarandstaðan reyndi ekki að koma neinum málum í gegn – var bara á móti öllu
Eyjan
Fyrir 1 viku

Kolla varar Samfylkinguna við – Megn óánægja með flokkinn í sumum hverfum borgarinnar

Kolla varar Samfylkinguna við – Megn óánægja með flokkinn í sumum hverfum borgarinnar