Hákon Hrafn Sigurðsson er höfundur þessarar greinar:
— — —
Fyrir ári voru birtar hér tölur um verðbólgu síðustu 30 ár og svo örlítil umræða um verðbólgumarkmið Seðlabankans og frekar vonlausa spá hans. (http://silfuregils.eyjan.is/2009/04/23/um-verdbolgu-og-vanda-heimilanna/) Það var semsagt dregið í efa að spá hans væri raunhæf og byggði á réttum forsendum. Í dag birtist ný verðbólgumæling sem sýnir 8,29% ársverðbólgu og verðbólgutölur síðustu 13 mánaða (frá fyrri birtingu sem vísað er í) sýna að verðbólgan var að meðaltali 9,63% á tímabilinu (sem þýðir að verðlag tvöfaldast á rúmlega 7 árum).
Ef Peningamál Seðlabankans eru skoðuð (http://www.sedlabanki.is/?PageID=87) kemur í ljós að fyrir ári taldi bankinn verðbólguþrýsting á „hröðu undanhaldi“ og þar stendur einnig „Gert er ráð fyrir að verðbólga verði 10,7% á öðrum árs- fjórðungi, um 8% á þeim þriðja og tæplega 5% á fjórða fjórðungi.“ en staðreyndin var 11,91%, 11,01% og 8,61%. Spá bankans gerði einnig ráð fyrir því að verðbólgumarkmið bankans næðust snemma á þessu ári, þ.e. að verðbólgan færi niður fyrir 2,5% í dag en staðreyndin er nærri 3x hærri verðbólga.
Ég geri mér grein fyrir því að þetta er spá en ef spá bankans er skoðuð ítarlega síðustu ár eftir að verðbólgumarkmið voru tekin upp þá held ég að hér sé frekar um óskhyggju að ræða en spá sem byggir á réttum forsendum. Í tilraunavísindum væri búið að henda forsendum módels sem hefði aðeins staðist í 7 tilraunum af nærri 100 (og þá þegar rauða strikið var sett sem launþegar stóðu að mestu fyrir og var dæmt til þess að springa). Reyndar setur bankinn fyrirvara um þessa spá sem er eðlilegt og segir að helsti óvissuþátturinn sem gæti leitt til meiri verðbólgu sé gengi krónunnar en aðrir undirliggjandi þættir ættu að draga úr verðbólguþrýstingi. Frá þessum tíma hefur gengið veikst örlítið þó Evran sé nú á aftur sama stað og fyrir ári (170kr). Flestir undirliggjandi þættir hafa ekki dregið svo úr verðbólguþrýstingi. Seðlabankinn segist jafnframt alltaf vera að endurskoða forsendurnar en það virðist ekki bera árangur.
Skyldu menn aldrei hafa hugleitt það að verðtrygging sem á að tryggja verðgildi tryggir líka það að allir aðilar á markaði geta hækkað sína vöru og þjónustu og alltaf bent á verðbólgan hafi hækkað svo mikið síðan síðast. Léleg hagstjórn veitir t.d. samkeppnisaðilum nánanst „löglega“ afsökun fyrir verðhækkunum. Um áramót hækka ríki og sveitarfélög sín gjöld sem skilar sér í aukinni verðbólgu, þá næst hækkar aðili B verðið hjá sér og svo C o.sv.frv. Þetta væri hugsanlega í lagi ef laun hækkuðu líka.
Stjórnmálamenn töluðu mikið um það eftir hrun að ná tökum á verðbólgunni. Það hefur ekki tekist og þessir sömu aðilar tala nú um eitthvað annað. Tala um það að Seðlabankinn eigi að vera sjálfstæður og eru þarmeð að afsala sér að miklum hluta ábyrgð á stjórn efnahagsmála. Seðlabankinn á að vera óháður pólítík hvers tíma en ríkisstjórn landsins hlýtur að vera sá aðili sem ber ábyrgð á stjórn efnahagsmála.