Sigrún Davíðsdóttir fjallar um sérlega góða lánafyrirgreiðslu ríkisins til Sögu Capital og VBS, einkennilegar reikningskúnstir í kringum þær sem hún segir að séu löglegar en „arfavitlausar“.
Í pistli Sigrúnar segir meðal annars:
— — —
„Í ársreikningi Sögu fyrir árið 2008 kemur fram að bankinn fékk lán frá ríkissjóði upp á tæpa tuttugu milljarða króna: tveggja prósenta raunvextir, lánstíminn sjö ár. Fyrstu tvö árin eru aðeins greiddir vextir, engar afborgarnir af höfuðstól. Tveggja prósenta raunvextir eru mjög góð kjör. Ríkissjóður veitti VBS banka einnig lán, rúma 26 milljarða, einnig með tveggja prósenta vöxtum. Ríkið á ekki kost á sömu kjörum, þyrfti að borga fjögurra prósenta vexti fyrir sín lán. Ríkið borgar því með láninu.
Það er morgunljóst að bankarnir ættu ekki kost á slíkum lánum annars staðar. Ríkissjóður er að lána bönkunum því bankar eiga erfitt með að fjármagna sig þessi misserin. Án láns færu bankarnir í þrot.
En Sögu varð meira úr láninu en einvörðungu peningarnir. Bókfærslan á láninu skapaði Sögu hagnað sem minnkaði tap bankans úr tæpum ellefu milljörðum niður í tæpa fjóra milljarða. En hvernig er það nú hægt?
Í ársreikningum kemur fram að Saga færir sér til tekna mismuninn á lánakjörum ríkissjóðs og svo þeim kjörum sem fengist hefðu á almennum markaði. Bankinn gefur sér að á almennum markaði hefðu þeir þurft að borga 12 prósent í vexti, ekki tvö prósent. Þennan vaxtamismun færa þeir sér til tekna, það er að bankinn telur sér til tekna vaxtamuninn á láninu sem þeir ekki tóku og svo kostakjörum ríkissjóðs.
Í tölum er þetta þá þannig að með markaðskjörum hefði Saga þurft að borga tæpum sjö milljörðum meira á líftíma lánsins en þeir þurfa að borga af láni ríkissjóðs – og þar með verða þessir sjö milljarðar að hagnaði. Með öðrum orðum: hagnaður sem aldrei fékkst í hendi er því talinn til beinharðrar tekna. Í staðinn fyrir að skila tæplega ellefu milljarða tapi í fyrra er tapið ‘aðeins’ tæpir fjórir milljarðar. – VBS beitti sömu aðferð: telur sér til tekna rúmlega níu milljarða – lán ríkissjóðs til VBS nam 26 milljörðum.“