Ég set fram nokkra punkta vegna greinar sem birtist í vefritinu Herðubreið í gær, en þar er fjallað um skipun Jóns Sigurðssonar í stöðu formanns bankastjórnar Íslandsbanka.
1. Því er haldið fram að Fjármálaeftirlitið hefði ekki getað stöðvað stofnun Icesave-reikninga erlendis.
Það er rangt. Lagaheimildin er til staðar. Hún hjómar svona:
„Fjármálaeftirlitið getur bannað stofnun útibús erlendis ef það hefur réttmæta ástæðu til að ætla að stjórnun og fjárhagsstaða hlutaðeigandi fjármálafyrirtækis sé ekki nægilega traust.“
Icesave var sett á stofn í Hollandi í maí 2008 þegar ljóst var að í óefni stefndi með íslenska bankakerfið. Í blaði sem Landsbankinn gaf út á ensku var greint frá Icesave í Hollandi með myndum af Björgólfi Guðmundssyni, Kjartani Gunnarssyni og fleirum. Í sama blaði var viðtal við Jón Sigurðsson, stjórnarformann Fjármálaeftirlitsins, þar sem hann sagði að fjárhagur íslensku bankanna væri mjög traustur. Það er varla afsökun í þessu að allt fjármálakerfið virðist hafa tekið ákvörðun um að fljóta að feigðarósi, eftirlitsmennirnir bera samt ábyrgð.
2. Áðurnefnt blað var gefið út af Landsbankanum á ensku og dreift víða erlendis. Það er kannski spurning um orðalag, en samkvæmt mínum skilningi er fullkomlega eðlilegt að kalla þetta auglýsingapésa – og að nærvera Jóns Sigurðssonar í þessu riti var sérlega óheppileg. Athugasemd frá Jóni breytir engu þar um. Hann er heldur ekki maður sem dettur inn í viðtöl af tilviljun, fer yfirleitt ekki í þau fyrr en að vel athuguðu máli.
Þarf að minna á að aðeins fimm mánuðum síðar var Icesave reikningunum í Hollandi lokað fyrirvaralaust og að síðan hefur staðið illvíg milliríkjadeila um þá? Á tíma Jóns sem stjórnarformanns FME tókst heldur ekki að koma Icesave reikningunum í Bretlandi í dótturfélag, en það hefði getað forðað þjóðinni frá mikilli ógæfu.
3. Það hefur verið upplýst að erlendir kröfuhafar sem hafa eignast Íslandsbanka, mjög ósamstæður hópur, hafi ekki ákveðið ráðningu Jóns Sigurðssonar, heldur hafi það verið skilanefnd bankans, undir stjórn Árna Tómassonar. Það hefur vakið athygli að Jón Sigurðssson skipaði Árna í skilanefndina þegar hann var stjórnarformaður FME – og að nú skipar Árni Jón í þetta starf.
4. Aðalatriðið í þessu máli er að innan mánaðar á að birtast skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis. Þar verður væntanlega fjallað ítarlega um íslensku eftirlitssofnanirnar og hvað þær höfðust að í aðdraganda hrunsins. Fjármálaeftirlitið er undir smásjá – hvers vegna greip það ekki í taumanna, skildi það ekki vandann, hvers vegna það sagði að bankarnir væru góðir og stöðugir allt fram á síðasta dag? Það er dómgreindarleysi hjá gömlum ráðherra og embættismanni eins og Jóni Sigurðssyni að taka að svona starf á þessum tímapunkti.
5. Í greininni, sem eins og ég segi kemur úr innsta kjarna spunavélar Samfylkingarinnar, er látið í veðri vaka að ég kalli Jón Sigurðsson „glæpamann“.
Því fer náttúrlega fjarri. Ég hef aldrei notað slíkt orð um Jón Sigurðsson – og raunar er þetta ekki orðalag sem mér er tamt. Eftir hrun hef ég talað um vanhæfa menn og fjárglæframenn – en ég tek yfirleitt ekki sterkar til orða.
Ég hef hins vegar sagt, líkt og viðskiptaráðherrann núverandi, að því sé líkast sem Fjármálaeftirlitið hafi spilað með „hinu liðinu“.
Jón var yfirmaður stofnunar sem brást illa. Flest réttsýnt fólk hlýtur að sjá að það fer afskaplega illa á því að hann taki við háu embætti meðan það mál er ekki útkljáð – sama hvað þeir í Samfylkingunni hafa mikla trú, kannski verðskuldaða að einhverju leyti, á Jóni Sigurðssyni.