Maður gerir ráð fyrir að Icesave fari loks í gegnum þingið á miðvikudag.
Og þá er hugsanlegt að einhverjir stjórnarliðar andi léttar. Telji að nú séu þeir komnir á lygnan sjó.
Mér finnst líklegt að ekki verið mikið talað um Icesave næstu misserin. Flestir eru búnir að fá alveg nóg af málinu. Og samkvæmt samningnum við Breta og Hollendinga hafa Íslendingar greiðslufrest í nokkur ár.
En það er svosem ekki víst að vandræðin á stjórnarheimilinu séu liðin hjá. Kannski eru þau rétt að byrja.
Steingrímur notaði viðtal fyrir jólin til að minna á að hann hefði ekki breytt um skoðun á Evrópusambandinu, hann væri enn á móti því, og að hann teldi að krónan væri góður gjaldmiðill sem nýttist hagkerfinu vel.
Strategía Samfylkingarinnar í ríkisstjórn – mótuð á vikulegum fundum Einars Karls Haraldssonar með aðstoðarmönnum ráðherra – hefur verið að láta lítið fyrir sér fara.
Láta Steingrím taka höggin.
En einhvern tíma verður Samfylkingin, stærsti flokkurinn á þingi, að stíga fram og skýra markmið sín – og jafnvel reyna að vinna Evrópustefnunni fylgi. Eins og staðan er virðist einsýnt að samningur við Evrópusambandið verði felldur.
En þá er hætt við að lýðum verði ljóst að himinn og haf er milli stjórnarflokkanna.