Viðskiptablaðið skýrir frá því að viðræður séu hafnar um samruna Íslandsbanka og Kaupþings/Arion. Eigendur bankanna, sem eru nú hinir erlendu kröfuhafar, sjái mikla hagræðingarmöguleika þarna.
Það má líka vera ljóst að bankakerfið hérna er of stórt – það hljóp í það mikill ofvöxtur – en það vantar mikið upp á að það umfangið hafi dregist í samræmi við minnkandi vægi þess.
En þetta er síður en svo bara íslenskt fyrirbæri.
Sigrún Davíðsdóttir flutti pistil í í útvarpið í gær, vitnaði meðal annars í Paul Krugman, og dregur þá ályktun að heimurinn væri betur settur með mun minni fjármálageira:
„Bandaríski hagfræðingurinn Paul Krugman hefur bent á að í sögulegu samhengi sé bankageirinn í heiminum nú rúmlega helmingi stærri, miðað við heimsframleiðslu, en lengi áður. Það er ýmislegt sem bendir til að stækkun fjármálageirans hafi almennt ekki haft holl áhrif og dregið úr stöðugleika. Þó samdráttur sé alltaf sársaukafullur má álykta sem svo að heimurinn væri almennt betur settur með minni fjármálageira og færri bankamenn en verið hefur undanfarin ár.“