Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi aðstoðarmaður Geirs Haarde, heldur ræðu í þinginu og segir að á Íslandi sé verið að taka upp „vinstri vitleysis skattkerfi“.
Fyrir nokkru skrifaði Jón Steinsson, hagfræðingur í Bandaríkjunum, grein þar sem hann sagði að á Íslandi hefði verið rekið mjög hægri sinnað skattkerfi. Og af því það er svo mikill dilkadráttur á Íslandi er rétt að halda því til haga að Jón er Deiglupenni og hefur verið talinn til hægri í pólitík.
Jón skrifaði meðal annars:
“Skattkerfið okkar hefur t.d. verið langt til hægri við skattkerfi Bandaríkjanna. Og eru Bandaríkjamenn sjaldnast taldir sérlega vinstrisinnaðir. Á Íslandi hefur verið eitt skattþrep með tiltölulega lágum persónuafslætti, skattar á fyrirtæki og fjármagnstekjur hafa verið með því lægsta sem þekkist á meðal efnaðra ríkja, erfðaskattar og eignaskattar hafa verið lagðir niður og stærstum hluta tekna hins opinbera er aflað með virðisaukaskatti. Þetta skattkerfi er afrakstur markvissrar stefnu Sjálfstæðisflokksins yfir 18 ára tímabil. Og undir það síðasta komu miklir frjálshyggjufrömuðir í röðum til Íslands til þess að dásama þetta kerfi.
Það er yfirlýst markmið stjórnvalda að færa skattkerfið til vinstri. Ef mið er tekið af umræðu um skattamál á Íslandi undanfarin ár má ef til vill segja að fyrirliggjandi frumvarp stjórnvalda sé róttækt skref í átt að þessu markmiði. En ef horft er til annarra efnaðra landa ganga tillögur stjórnvalda ekki sérlega langt. Jafnvel eftir þessar breytingar verður skattkerfið á Íslandi talsvert til hægri við skattkerfið í Bandaríkjunum (þegar kemur að tekjutilfærsluáhrifum þess – en ekki heildarskattstiginu sem hefur verið og verður áfram hærra á Íslandi).”