Þegar ég byrjaði að fylgjast með tónlist höfðu plássin á Íslandi sínar hljómsveitir. Það voru auðvitað Keflavíkurböndin, Hljómar og Óðmenn, þau reyndar slitu sig frá þessu – fluttu til Reykjavíkur, svona eins og þegar Bítlarnir fluttu frá Liverpool til Lundúna.
Frá Akranesi komu Dúmbó og Steini, Ingimar Eydal og hljómsveit frá Akureyri, Mánar frá Selfossi, Logar frá Vestmannaeyjum, Facon frá Bíldudal, BG og Ingibjörg frá Ísafirði. Það var meira að segja tekið til þess að Roof Tops kæmu ekki bara frá Reykjavík, heldur úr Vesturbænum.
Og frá Siglufirði komu Gautar eins og Dr. Gunni rifjar upp. Á Siglufirði var mikið tónlistarlíf á þessum árum. Stærsti smellur Gauta var Kveiktu ljós sem sveitin lék með blönduðum kvartett og karlakórnum Vísi. Flutningur þessa lags í sjónvarpi á sínum tíma er alveg ógleymanlegur – vonandi hefur hann ekki glatast.
Síðar þegar ég fór í hljómsveit kallaðist hún Gaukarnir. Ég hygg að nafngiftin hafi verið undir áhrifum frá hljómsveit Ólafs Gauks og Gautum.