Á sjónvarpsstöðinni ESPN eru þeir að rifja upp heimsmeistarakeppnir í fótbolta. Maður fær að sjá gömul uppáhaldslið, sum sá maður reyndar eiginlega ekki. Ég fylgdist af ákafa með heimsmeistarakeppninni 1970, en ekki sá maður mikið af henni í sjónvarpi. (Brot úr HM 1966 voru sýnd í Nýja bíói, ég man eftir að hafa farið þangað sem smástrákur – og svo var þetta líka sýnt á tjaldi í KR-húsinu.)
Maður heyrði bara nöfn eins og Pelé, Jairzinho, Tostao, Rivelino, Gerson og Carlos Alberto – þóttist vera þeir uppi á Landakotstúni. Sumir segja að þetta brasilíska lið sé hið besta í sögunni.
Nú sér maður í sjónvarpi að þeir voru dásamlegir – en þeir nenntu ekki að verjast fyrir sitt litla líf. Framfarir í varnarleik hafa ekki endilega gert íþróttina skemmtilegri.
Áðan voru þeir svo að sýna frá keppninni 1982, þeirri fyrstu sem við fengum að fylgjast með í íslensku sjónvarpi. Eitt skemmtilegasta liðið í keppninni var hið franska með miðjumennina Platini, Tigana og Giresse í fararbroddi, stórkostlega leikna menn. Örlagaríkasti leikur þessa liðs var gegn Þýskalandi. Frakkarnir töpuðu í vítaspyrnukeppni eftir að hafa komist 3-1 yfir í framlengingu. Það voru mikil vonbrigði, Frakkarnir voru litlir og nettir, Þjóðverjarnir voru stórir og sterkir, höfðu leikmenn eins og Klaus Augenthaler, Horst Hrubesh og tugþrautarmanninn Hans Petter Briegel.
Frægt atvik í leiknum var þegar þýski markmaðurinn Harald Schumacher stökk af öllu afli á franska sóknarmanninn Patrick Battiston. Battiston var borinn af velli meðvitundarlaus, með brákaðan hryggjarlið og tveimur tönnum fátækari. Brotið var fullkomlega brútalt, líkamsárás – en Schumacher var ekki rekinn af velli.
En hann varð ekki vinsæll fyrir þetta. Í skoðanakönnun sem var gerð í Frakklandi eftir keppnina kom í ljós að aðeins einn Þjóðverji var óvinsælli en Schumacher – sjálfur Adolf Hitler. Hans er fyrst og fremst minnst fyrir þetta brot; kemst þannig í söguna sem einn af hötuðustu fótboltamönnum allra tíma.
[youtube=http://www.youtube.com/watch?v=tGq7VcaHoqo&feature=related]
Það er svo saga að segja frá því að árið eftir þetta gerðist náði ég að hitta Schumacher stuttlega. Þá fór ég í eina skiptið á ævinni á fótboltaleik í Þýskalandi, í Köln. Schumacher lék þá með liðinu. Eftir leikinn fórum ég og vinir mínir á krá félagsins, mig minnir að hún hafi heitað Zum Geisbock. Þar var Schumacher – ég náði að segja halló við hann. Það var svosem ekki meira.
Og það má svo alveg rifja það upp líka að þetta sumar, 1983, var umtalaðasti fótboltamaður í Þýskalandi Íslendingurinn Atli Eðvaldsson. Hann hafði þá unnið það afrek að skora fimm mörk í leik með liði sínu Fortuna Düsseldorf og þótti einstakt.