Sem þjóð geta Íslendingar komist í mikið tilfinningalegt uppnám. Þar eiga þeir litla samleið með hinum Norðurlandaþjóðunum.
Nú eru þeir í djúpu þunglyndi vegna efnahagshrunsins og margir halda því fram að hér verði geysileg fátækt ef Icesave samningurinn verður samþykktur.
Þegar Íslendingar kepptu í fótbolta við Dani í miðju góðærinu sungu landar á fótboltavellinum Parken í Kaupmannahöfn:
„Við ætlum að kaupa Parken!“
Þá höfðu Íslendingar keypt nokkur stórhýsi í Kaupmannahöfn, þar á meðal verslanirnar Magasin du Nord og Illums.
Nú er búið að taka þessi hús upp í skuldir.
Svo má líka rifja upp að þegar Íslensk erfðagreining fór í gang þóttist þjóðin viss um að við værum fremst í heimi í erfðarannsóknum.
Það var rætt um það af fullri alvöru að ekki væri langt í að Kári Stefánsson fengi Nóbelsverðlaunin.
Þessi viðhorf voru mjög algeng – áður en fyrirtækið tók til starfa.
Nú virðist rekstrarfé Decode vera á þrotum. Það er reyndar mjög leiðinlegt. Innan fyrirtækisins starfar margt gott fólk við merkilegar rannsóknir.
Það var bara upphaf fyrirtækisins sem var skelfing ólánlegt – dæmi um hvað íslenska þjóðin getur stundum verið í miklu ójafnvægi og hvað getur stundum verið auðvelt að leika á hana.
Einhver talaði um sambland af minnimáttarkennd og mikilmennskuhroka.
Það er ekki fjarri lagi.