Natasha Anasi spilaði með íslenska kvennalandsliðinu í kvöld sem vann Þýskaland 3-0 á Laugardalsvelli.
Ísland er komið í lokakeppni EM með þessum frábæra sigri en mætingin á völlinn í kvöld var góð og stemningin flott.
Fullt af ungum og efnilegum knattspyrnukonum frá Símamótinu voru mættar að styðja stelpurnar og þar á meðal dóttir Natöshu en hún greinir frá þessu í viðtali eftir leik.
,,Geggjuð tilfinning, ég get ekki útskýrt það fyrir ykkur hvað er gott að vera komin á EM,“ sagði Natasha.
,,Ég var mjög ánægð með mína frammistöðu, ég notaði minn styrkleika gegn þeim. Við náðum líka að halda hreinu sem er æði gegn þessu stórkostlega liði.“
,,Þetta var, ég get ekki útskýrt hvernig tilfinningin var. Dóttir er þarna að spila á Símamótinu og hún var þarna með vinkonum sínum svo stolt af mömmu sinni!“
,,Þetta var geggjað, maður heyrir í þeim öskra og fagna þegar við gerðum vel, þetta var alvöru stemning.“