fbpx
Þriðjudagur 14.maí 2024
Fréttir

Nefnd um eftirlit með lögreglu segir lögregluna hafa neitað að afhenda sér gögn

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 6. mars 2024 13:30

Mynd: DV/Maggi gnúsari

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nefnd um eftirlit með lögreglu hefur farið þess á leit við allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis að fyrirliggjandi frumvarpi til lögreglulaga verði breytt til að tryggja að lögreglan afhendi nefndinni umbeðin gögn vegna mála sem hún hefur til meðferðar. Nefndin segir að borið hafi á því að lögreglan, að skipan ríkissaksóknara, neiti að afhenda henni gögn um mál sem séu í rannsókn þrátt fyrir ákvæði laga um að skylt sé að afhenda nefndinni þau gögn sem hún óskar eftir.

Þetta kemur fram í umsögn nefndarinnar  um frumvarp til breytinga á lögreglulögum sem nú er til meðferðar á Alþingi.

Í umsögninni segir að samkvæmt lögreglulögum sé ríkissaksóknara, héraðssaksóknara og lögreglustjórum, þar með talið ríkislögreglustjóra, skylt að afhenda nefndinni þær upplýsingar sem hún þurfi til að sinna starfsskyldum sínum. Ákvæðið sé afdráttarlaust en þrátt fyrir það hafi lögreglan, samkvæmt fyrirmælum ríkissaksóknara, ekki afhent nefndinni gögn í ákveðnum málum þar sem málin séu í rannsókn. Það skuli athugast að fyrirmæli ríkissaksóknara víkji fyrir fyrirmælum laga.

Nefndin segist hins vegar hafa skilning á því að lögreglan afhendi ekki gögn í stórum og flóknum sakamálum er varði skipulagða glæpastarfsemi, manndráp o.fl. Aftur á móti varði kvartanir til nefndarinnar yfirleitt lítinn hlut í slíkum málum og afhending gagna hefði haft engin áhrif í málinu. Dæmi sé um að nefndinni hafi verið synjað um gögn í máli sem varðaði smávægilegt umferðarlagabrot þar sem
málið var í rannsókn.

Sami trúnaður

Í umsögninni minnir nefndin enn fremur á að samkvæmt lögreglulögum sé hún bundin þagnarskyldu um efni gagna og upplýsingar sem hún fær frá ákæruvalds- og löggæsluembættum á sama hátt og starfsmenn þeirra embætta.

Nefndin leggur til að allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis geri breytingar á frumvarpinu til að auka traust á milli hennar og lögreglu og ákæruvalds og til að koma í veg fyrir að reynt verði að fá gögn frá lögreglunni í gegnum nefndina.

Tillaga nefndarinnar er sú að í frumvarpinu verði kveðið á um að henni sé óheimilt, samkvæmt beiðni samkvæmt stjórnsýslulögum eða upplýsingalögum, að afhenda gögn sem upprunnin séu hjá lögreglu eða ákæruvaldi. Beiðnum um afhendingu slíkra gagna skuli beint til viðkomandi lögregluembættis eða ákæruvalds. Ef beiðni berist nefndinni um gögn sem upprunnin séu frá henni sjálfri verði henni óheimilt að afhenda gögnin ef málinu sé ólokið í réttarvörslukerfinu að undanskilinni ákvörðun í málinu.

Nefndin segir í umsögn sinni að þessi tillaga hennar sé frábrugðin þeim reglum sem gilda í dag við afhendingu gagna. Lögreglan sé hins vegar betur í stakk búin til að meta hvort rétt sé að synja eða hvort þörf sé á að yfirstrika yfir meira en aðeins persónugreinanlegar upplýsingar áður en gögn séu afhent. Þá sé það mat nefndarinnar að þessi regla, sem hún leggur til, myndi skapa ró á milli hennar og lögreglunnar og ákæruvaldsins. Sér í lagi verði frumvarpið að lögum enda sé líklegt að viðkvæmari mál komi inn á borð nefndarinnar í kjölfar þess.

Velti nefndin þess vegna því upp hvort þau sem í nefndinni sitja og starfsmenn nefndarinnar ættu að vera öryggisvottaðir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Vilborg segir að fólki sé misboðið vegna ákvörðunar Morgunblaðsins

Vilborg segir að fólki sé misboðið vegna ákvörðunar Morgunblaðsins
Fréttir
Í gær

Egill spyr hvort Íslendingar þurfi ekki að læra lexíu af Eurovision

Egill spyr hvort Íslendingar þurfi ekki að læra lexíu af Eurovision
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Víkingur Heiðar blandar sér í þjóðfélagsumræðuna – „Ég held að þjóð þín sé reyndar komin með nóg af gífuryrðunum“

Víkingur Heiðar blandar sér í þjóðfélagsumræðuna – „Ég held að þjóð þín sé reyndar komin með nóg af gífuryrðunum“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Fullltrúa Hollands vísað úr Eurovision – Yfirheyrður af lögreglu

Fullltrúa Hollands vísað úr Eurovision – Yfirheyrður af lögreglu