Åge Hareide, þjálfari íslenska karlalandsliðsins, sat fyrir svörum á blaðamannafundi í Laugardal í dag. Hann var auðvitað spurður út í tapið gegn Lúxemborg á föstudagskvöld.
Íslenska liðið tapaði 3-1 gegn Lúxemborg í undankeppni EM 2024 á föstudag og er vonin um að komast á lokamótið í gegnum undankeppnina orðin ansi veik.
„Það er erfitt að tapa. Það er það versta sem ég veit um í fótbolta,“ sagði Hareide á fundinum.
Frammistaða íslenska liðsins var alls ekki upp á marga fiska á fögudag og einstaklingsmistök reyndust dýr.
„Við verðum að koma rétt fram við þá leikmenn sem hafa gert mistök. Við þurfum þá í framtíðinni. Liðið tók þessu illa og við þurfum að lyfta andanum.
Ég get ekki farið að saka leikmenn um að standa sig illa. Það er mín ábyrgð að lyfta þeim upp. Ég vel þá og spila þeim svo ég verð að standa með þeim. Ég mun alltaf gera það. Þetta eru mínir leikmenn.“