Laurent Nicollin, forseti Montpellier, hefur staðfest það að Chelsea hafi boðið í framherjann Elye Wahi á dögunum.
Um er að ræða gríðarlega efnilegan leikmann sem skoraði 19 mörk fyrir Montpellier í Ligue 1 á síðustu leiktíð.
Chelsea vill ennþá styrkja sig í framlínunni og er Wahi ofarlega á óskalista félagsins. Benfica og Tottenham horfa einnig til leikmannsins.
Frá 2020 hefur þessi tvítugi leikmaður skorað 32 deildarmörk í 84 leikjum og er landsliðsmaður U21 liðs Frakka.
,,Þeir hafa spurst fyrir um hann en við erum að bíða eftir betri tilboðum í Elye Wahi,“ sagði Nicollin.
,,Það er rétt að við höfum fengið eitt formlegt tilboð í leikmanninn frá Chelsea, á mánudag eða síðasta þriðjudag.“
,,Við svöruðum og þökkuðum þeim fyrir boðið en þetta var ekki boð sem við gátum samþykkt svo við bíðum.“