Ísak Bergmann Jóhannesson, landsliðsmaður og leikmaður danska stórliðsins FC Kaupmannahafnar, er glaður til í að vera áfram hjá félaginu svo lengi sem hann fær að spila.
Ísak kom inn á sem varamaður í 0-2 sigri FCK á Breiðabliki í fyrri leik liðanna í 2. umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu í gær. Hann ræddi við 433.is eftir leik og þar var Ísak meðal annars spurður út í framtíð sína hjá FCK.
„Ég vil fyrst og fremst spila og er búinn að fá margar mínútur á undirbúningstímabilinu. Það er skemmtilegast að spila fótbolta, þá nýt ég mín. Ef ég fæ að spila hér er ég ánægður með það.“
Ísak var afar ósáttur með hlutverk sitt hjá FCK á síðustu leiktíð og lét það í ljós í fjölmiðlum hér á landi í síðasta mánuði. Hann segir samband sitt við þjálfarann Jacob Neestrup hins vegar mjög gott.
„Það var bara í fjölmiðlum sem var ósætti milli mín og þjálfarans. Það var aldrei milli mín og hans.“