Enskir miðlar segja að Ryan Giggs fyrrum leikmaður Manchester United vilji ólmur komast í starf sem þjálfari á næstunni eftir að hafa verið hreinsaður af ásökunum í gær.
Saksóknari í Manchester felldi málið niður í gær en Giggs var sakaður um ofbeldi í nánastu sambandi
Málið átti að fara fyrir dóm í lok júlí en saksóknari ákvað að fara ekki með málið lengra og felldi það niður.
Giggs var sakaður um líkamlegt ofbeldi sem átti að hafa átt sér stað árið 2020. Þá var Giggs sakaður um að beita Kate Greville, fyrrverandi kærustu sína, andlegu ofbeldi á árunum 2017-2020.
Giggs hélt alltaf fram sakleysi sínu en nú er ljóst að málið fer ekki lengra í kerfinu. Stór ástæða þess var að Greville neitaði að bera vitni lengur og taldi framgöngu málsins vera skrípaleik.
Giggs var þjálfari Wales þegar málið kom upp en þurfti að láta af störfum á meðan rannsókn fór fram. Hann vill nú finna sér nýtt starf sem fyrst.