Það er ekki fyrir alla að vinna með Mauricio Pochettino, stjóra Chelsea, en hann tók við félaginu í sumar.
Frá þessu greinir Rickie Lambert sem vann með Pochettino hjá Southampton um tíma.
Leikmenn Southampton voru óánægðir með æfingarnar á St. Mary’s undir Pochettino og tók Lambert það á sig að ræða við Pochettino.
Eftir fund með Argentínumanninum taldi Lambert sig hafa leyst málið en fékk svo að kynnast öðru eftir helgi.
Pochettino lét leikmenn hlaupa enn meira eftir að Lambert ákvað að skipta sér að hans vinnu og fengu allir að finna fyrir því.
,,Til að byrja með þá fá leikmennirnir aðeins 45 sekúndur til að hlaupa 150 metra og svo færðu 15 sekúndur í hvíld,“ sagði Lambert.
,,Eftir þessar 45 sekúndur þá þarf að hlaupa sex metrum lengra og hraðinn verður alltaf miklu meiri með tímanum.“
,,Ég fór inn á skrifstofu og ræddi við hann, ég talaði svo við strákana og sagðist hafa reddað þessu. Ég sagði að mánudagurinn yrði mun betri.“
,,Ég spilaði leik í 90 mínútur og æfði svo á mánudaginn. Við tókum ekki bara 12 hlaup heldur 24. Ég hljóp um hlæjandi og nánast grátandi því ég vissi hvað hann var að gera. Hann var að reyna að brjóta mig og hann náði því markmiði.“