Washington Post segir að samkvæmt upplýsingum frá The Californian Department of Fish and Wildlife sé nú reynt að veiða björninn í gildru en hann er sagður auðþekkjanlegur vegna þess hversu stór hann er en meðalþyngd fullorðinna karldýra er um 125 kíló. Hann er sagður hafa áttað sig á að mat sé að finna á heimilum fólks og sé ekki lengur hræddur við fólk, nú tengi hann það við aðgengi að mat.
Lögreglan segir að á föstudaginn hafi honum tekist að „troða sér inn“ um lítinn glugga á húsi einu. Tveir lögreglumenn fóru á vettvang og börðu húsið að utan þar til Hank skaust út um bakdyr og á brott. Lögreglan segir að hann brjótist ekki inn í bílskúra þar sem fólk geymir rusl, heldur brjótist hann inn á heimilin sjálf.
Ann Bryant, forstjóri Bear League sem eru samtök sem vinna að því að „fræða fólk um sannleikann“ um birni og reyna að forða árekstrum bjarndýra og manna sagði í Facebookfærslu að yfirvöld hafi í hyggju að fella Hank. Hún sagði að þrjú dýraathvörf séu reiðubúin til að vinna með yfirvöldum við að koma Hank „af götunni og á gott heimili“.
Yfirvöld segja að það sé alltaf síðasta úrræðið að fella dýr og verið sé að íhuga hvort hægt sé að senda Hank í dýraathvarf en hafa verði í huga að það geti verið hættulegt fyrir birni því það geti haft miklar og neikvæðar afleiðingar fyrir andlega heilsu þeirra.