fbpx
Mánudagur 29.apríl 2024
Pressan

Ráðgátan um morðið á JonBenét – Kom morðinginn upp um sig í bréfinu?

Kristján Kristjánsson
Miðvikudaginn 29. desember 2021 07:00

JonBenét Ramsey.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Um jólin 1996 var JonBenét Ramsey, 6 ára, kyrkt og lík hennar falið í kjallaranum á heimili hennar. Málið vakti mikla athygli og hefur gert allar götur síðan. Gríðarleg fjölmiðlaumfjöllun var um það og bandaríska þjóðin var harmi slegin. Á forsíðum dagblaða var skrifað um „morðið á lítilli fegurðardrottningu“ og íbúar í heimabæ JonBenét, Boulder í Colorado, syrgðu hana.

Fólk spurði sig hver hefði myrt þessa litlu og lífsglöðu sex ára stúlku? Hún hafði vakið athygli fyrir þátttöku í fegurðarsamkeppnum barna og sumir vissu því hver hún var.

Nú eru 25 ár liðin frá morðinu sem er enn til rannsóknar en lögreglan hefur ekki enn getað slegið því föstu hvað gerðist á jóladag eða annan dag jóla árið 1996 þegar JonBenét var myrt.

Fjöldi gjafa

Jólin höfðu verið góð hjá Ramsey-fjölskyldunni. Foreldrarnir, John og Patsy Ramsey, höfðu ausið gjöfum yfir börnin sín tvö, JonBenét og eldri bróður hennar, Burke, sem var 9 ára.

JonBenét hafði meðal annars fengið nýtt reiðhjól. Hún náði að prófa hjólið áður en fjölskyldan fór heim til vinafjölskyldu sinnar til að borða hátíðarmatinn á jóladag. Þegar þau komu heim var JonBenét háttuð og sett upp í rúm. Það var í síðasta sinn sem fjölskylda hennar sá hana á lífi.

Hvað gerðist um nóttina veit enginn nema morðinginn. En hins vegar er vitað að fjölskyldan fann tveggja og hálfs síðna langt handskrifað bréf að morgni annars í jólum. Það lá í stiganum.

Í bréfinu stóð að höfundur þess hefði numið JonBénet á brott og krafðist hann 118.000 dollara í lausnargjald fyrir að skila henni heilli á húfi. Hann varaði fjölskylduna einnig við að láta lögregluna vita en hún tók ekki mark á því og hafði strax samband við hana.

JonBenét hafði keppt í fegurðarsamkeppnum fyrir börn

Lögreglan kom fljótlega á vettvang og hóf rannsókn á málinu sem mannráni en hún gerði mörg mistök strax í upphafi rannsóknarinnar. Til dæmis var heimili fjölskyldunnar ekki lokað af sem vettvangi afbrots og fengu vinir og ættingjar fjölskyldunnar að valsa þar um og skemmdu þar með hugsanlega sönnunargögn.

Síðar um daginn bað lögreglan John Ramsey um að fara um allt húsið til að sjá hvort eitthvað hefði verið fært til  eða hvort eitthvað væri „grunsamlegt“. Þegar hann fór niður í kjallarann og opnaði luktar dyr gerði hann óhugnanlega uppgötvun: Þar var lík JonBenét. Hún hafði verið kyrkt og slegin svo hrottalega í höfuðið að sprunga var í höfuðkúpunni. Límband var yfir munni hennar og hendurnar voru bundnar saman með rafmagnssnúru.

Grunur beindist að fjölskyldunni

Þar sem engin ummerki voru um innbrot fór grunur lögreglunnar að beinast að foreldrunum. Bréfið var einnig dularfullt. Auk þess að vera mjög langt þá var upphæðin, sem krafist var, nánast sú sama og John hafði fengið greidda í bónus fyrr á árinu.

Margir töldu að Patsy hefði skrifað bréfið því hvaða morðingi myndi þora að eyða 20 mínútum í að skrifa bréf? Rannsókn leiddi í ljós að það tók um 20 mínútur að skrifa svona langt bréf.  Með því að eyða svo löngum tíma í að skrifa bréfið átti morðinginn á hættu að upp um hann kæmist.

Dagana eftir morðið komu John og Patsy fram í sjónvarpi og héldu fram sakleysi sínu. Eftir 14 daga stanslausa rannsóknarvinnu komst lögreglan að þeirri niðurstöðu að þau hefðu líklega ekki verið viðriðin morðið.

Mörgum árum síðan beindist grunur að bróður JonBenét, Burke. 2016 var heimildarmyndin „The Case Of: JonBenét Ramsey“ sýnd en í henni var því haldið fram að Burke hefði orðið systur sinni að bana, kannski fyrir slysni, með því að lemja hana í höfuðið með vasaljósi. Ástæðan var að sögn að hún hafði tekið nokkra ananasbita frá honum. Foreldrarnir voru síðan sagðir hafa hylmt yfir morðið.

Burke sagði í viðtali við Dr. Phil árið 2016 að hans kenning væri að einhver barnaníðingur hefði séð systur sína í fegurðarsamkeppni og orðið henni að bana.

Enn hefur enginn verið handtekinn eða ákærður vegna morðsins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 4 dögum

Nokkur ráð til að losna undan símafíkninni

Nokkur ráð til að losna undan símafíkninni
Pressan
Fyrir 4 dögum

Unglingur dæmdur í ævilangt fangelsi – Stakk ellilífeyrisþega í hjartað

Unglingur dæmdur í ævilangt fangelsi – Stakk ellilífeyrisþega í hjartað