fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Eyjan

Viðtal: Guðlaugur Þór virkjar utanríkisþjónustuna í mótmæli við ákvörðun ESB – „Gætir enginn hagsmuna Íslendinga nema við sjálf“

Heimir Hannesson
Fimmtudaginn 25. mars 2021 13:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þær fregnir bárust í gær að Evrópusambandið hefði bannað bóluefnaflutning út fyrir landsteina aðildarríkjanna 27 og af fyrstu fregnum í erlendu pressunni um málið að dæma, var staðan ekki góð fyrir Ísland. Samkvæmt þeim fregnum átti að skrúfa alveg fyrir flutning bóluefna frá Evrópusambandinu til ríkja utan ESB, þar með talið EFTA-ríkjanna.

Seint í gær birti svo ríkisstjórnin áréttingu á stöðunni á heimasíðu stjórnarráðsins. Kom þar fram að Katrín Jakobsdóttir hafi fengið skýr skilaboð frá Ursula von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um að nýjar reglur ESB um útflutningshöft myndu ekki hafa áhrif á afhendingu bóluefna samkvæmt samningi Íslands við Evrópusambandið þar um.

„Ekki er því ástæða til að ætla að nýrri reglugerð ESB verði beitt gegn Íslandi né að hún hafi einhver áhrif á afhendingar bóluefna til Íslands,“ segir jafnframt í tilkynningunni.

Þar kom jafnframt fram að útflutningshömlurnar sem boðaðar höfðu verið til EFTA-ríkjanna gengu í berhögg við EES-samninginn og að Guðlaugur Þór Þórðarson hefði rætt við utanríkisráðherra Noregs til þess að stilla saman strengi þjóðanna í málinu og óskað eftir atbeina utanríkisráðherra Svíþjóðar til að knýja á um skjóta lausn málsins.

Þá var staðgengill sendiherra Evrópusambandsins hér á landi kallaður á teppið í utanríkisráðuneytinu við Rauðarárstíg í gær og mótmælum komið á framfæri.

Ekkert að vanbúnaði að fara okkar eigin leiðir

Í samtali við DV segir Guðlaugur að um skýrt brot á 12. grein EES samningsins sé að ræða. „Þeir bara mega ekki setja útflutningstakmarkanir á okkur og ef að ESB ætlar að halda þessu til streitu eru þeir ekki að uppfylla sínar skuldbindingar;“ segir hann. „Ég hef komið þessu skýrt á framfæri við þá. Þetta er nákvæmlega það sama og gerðist í tilfelli lækningatækjanna fyrir ári síðan.“

Aðspurður hvort rétt hafi verið staðið að kaupum á bóluefnum fyrir íslensku þjóðina segir Guðlaugur að rökin hafi á þeim tíma verið að það myndi fylgja því áhætta að standa að bóluefnakaupunum og samningagerð ein. „Hins vegar,“ útskýrir Guðlaugur, „liggur það alveg fyrir að miðað við framgöngu annarra ríkja innan ESB er okkur ekkert að vanbúnaði að fara okkar eigin leiðir líka, samhliða samningnum við Evrópusambandið.“

Er það þá í vinnslu að fara okkar eigin leiðir samhliða ESB samningnum?

„Þetta mál hefur verið á forræði heilbrigðisráðherra en auðvitað hljóta og eiga þessi mál alltaf að vera til sífelldrar endurskoðunar og endurmats.“

Kemur þá til greina að nýta utanríkisráðuneytið í meiri mæli ef farið væri í annan umgang af samningaviðræðum, og þá á eigin forsendum?

„Markmiðið hlýtur að vera að fá bóluefni og við eigum að leita allra leiða til þess. Við erum að gæta hagsmuna Íslendinga og þeirra sem hér búa, og það gerir það enginn fyrir okkur – í minni tíð hef ég aldrei dregið af mér við að beita mér og utanríkisþjónustunni til þess að berjast fyrir íslenskum hagsmunum ,“ segir Guðlaugur.

Stíft fundahald næstu daga

Í fréttum gærdagsins kom fram að Guðlaugur ætti fundi með fleiri ráðherrum erlendra ríkja í dag. Aðspurður hverjir það séu og hvernig þeir fundir hafa gengið í morgun segir Guðlaugur að um sé að ræða ráðherra Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna auk ráðamanna ESB í Brussel. „Ég lét kalla sendiherra ESB inn í ráðuneytið um leið og við fréttum af þessum áformum í gær og allir sendiherrar Íslands hjá aðildarríkjum ESB hafa þegar átt eða munu eiga fundi í höfuðborgum ESB-ríkjanna í dag þar sem þeir munu koma mótmælum okkar kyrfilega til skila,“ segir hann.

Markmiðið segir Guðlaugur vera að fá ESB til þess að breyta sinni reglugerð þannig að með öllu verði útséð að hægt verði að beita útflutningstakmörkunum gagnvart Íslandi og nú sé róið að því öllum árum. „Þetta geri ég með fundum mínum og hefur Ísland óskað eftir skyndifundi sameiginlegu EES-nefndarinnar þar sem mótmælum okkar er komið á framfæri með formlegum og skýrum hætti,“ segir Guðlaugur að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Segir kjósendur bera ábyrgð á þeim stjórnmálamönnum sem þeir kjósa

Segir kjósendur bera ábyrgð á þeim stjórnmálamönnum sem þeir kjósa
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum