fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Matur

Þetta borðar Siggi Gunnars á venjulegum degi

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Sunnudaginn 14. mars 2021 20:00

Siggi Gunnars. Mynd/Anton Brink

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Útvarpsstjarnan og spinningkennarinn Siggi Gunnars hefur enga trú á kúrum og ólíku mataræði og segir hinn gullna meðalveg vera það eina sem virkar til að viðhalda hraustum kroppi.

Sigurður Þorri Gunnarsson, betur þekktur sem Siggi Gunnars, stjórnar útvarpsstöðvum og -þáttum á daginn og kennir spinning á kvöldin. Það kemur okkur því ekki á óvart þegar Siggi segir að það sé ekki til neitt sem heitir venjulegur dagur hjá honum.

„Dagarnir eru mjög, mjög, mjög misjafnir. Það er allur gangur á því hvenær ég vakna, það fer allt eftir því hvaða verkefni liggja fyrir á degi hverjum, en mér þykir voða gott að ná að sofa til níu. Ég er algerlega B-týpa. En oft er mikið að gera og þá vaknar maður fyrr til þess að ná að komast yfir allt,“ segir hann.

„Eftir COVID hef ég lært að meta það að hefja vinnudaginn heima og geri það yfirleitt núna. Klára verkefni sem krefjast næðis og mæti svo á vinnustaðinn milli tíu og ellefu. Ég vinn hjá Árvakri þar sem ég stýri tveimur útvarpsstöðvum, K100 og Retró, ásamt því að vera með tvo daglega þætti á K100. Svo er ég með alls konar önnur spennandi verkefni í gangi, kenni spinning, skemmti við ýmis tilefni, stýri bingóþáttum ásamt alls konar öðru. Tvisvar í viku tek ég æfingu á morgnana með þjálfaranum mínum, Arnari Grant, tvisvar í viku kenni ég spinning á kvöldin. Ég reyni svo að koma inn öðrum æfingum og hjólatúrum utandyra inn í lausar stundir um helgar.“

Siggi Gunnars. Mynd/Anton Brink

Mataræði

Aðspurður hvort hann fylgi einhverju ákveðnu mataræði svarar Siggi neitandi. „Ég er búinn með allt í þessum bransa og hef nákvæmlega enga trú á mismunandi mataræði og læt ekki nokkurn mann telja mér trú um slíkt. Hinn gullni meðalvegur er það eina sem virkar, það er reyndar svoleiðis með flest í lífinu. Það að hafa jafnvægi á hlutunum er vænlegt til árangurs í öllu,“ segir hann

„Ég reyni að halda þessu svona sirka 80/20. Það er 80 prósent sem telst til þess að vera hollt og 20 prósent sem telst vera síður hollt. Ég er ekki mikið fyrir morgunmat svo ég borða fyrstu máltíð í hádeginu og fæ mér svo bensín tvisvar yfir daginn og borða kvöldmat milli 18.30 og 20.00. Hollur og góður matur, best ef ég næ að elda hann sjálfur svo ég viti nákvæmlega hvað fór í hann. Um helgar er svo meira frjálsræði. En þetta er allt spurning um jafnvægi, jafnvægið hefur skilað mér miklum árangri á síðastliðnu ári og er lykill að árangri í framtíðinni.“

Djass og eldamennska

Siggi elskar að vera í eldhúsinu. „Það er einhver besta heilun sem til er. Ég hlusta alltaf á tónlist, helst djass, og nýt þess að dunda mér í eldhúsinu,“ segir hann.

„Ég held að ég sé alveg sæmilegur kokkur, allt sem ég elda er ekki sérstaklega „Instagramvænt“, ég þarf að vinna í „lúkkinu“, en það bragðast alltaf vel. Ég elska að vinna með alls konar hráefni sem ég þekki og blanda þeim saman í stað þess að vinna eftir uppskrift, er ekkert spes í því. Ég er svona smakkari sem elskar að vinna sig í átt að góðu bragði. Mér finnst oft ágætt að vinna mig út frá uppskriftum, fá hugmynd, sleppa sumu og bæta öðru við.

Næring fyrir spinning

Þegar kemur að því að næra sig fyrir spinning tíma vill Siggi helst borða að lágmarki 90 mínútur fyrir tíma. „Og þá eitthvað létt,“ segir hann.

„Ef spinning tíminn er á kvöldmatartíma, sem það er yfirleitt, reyni ég að borða létta kvöldmáltíð svona einum og hálfum tíma fyrir tímann og svo borða ég ekkert eftir tímann.“

Uppáhalds máltíð?

„Ég elska indverskan mat, hann lærði ég sérstaklega að meta þegar ég bjó í Bretlandi og í hvert skipti sem ég kem í breska borg eða bæ byrja ég á því að leita uppi besta indverska staðinn. Ég á svo minn uppáhalds stað í London sem ég fer alltaf á, enda mikill fastakúnni í eðli mínu ef mér finnst eitthvað gott. Mig langar að læra að elda indverskan mat, hef ekki lagt í það. En þegar ég geri vel við mig þá er það indverskur matur, til dæmis af Bombay Bazaar eða Austur-Indía sem verður fyrir valinu. Svo þykir mér pasta alltaf gott og elda það mjög oft. Létt pasta með fáum hráefnum sem spila saman, ekki löðrandi í þykkri rjómasósu.“

Siggi Gunnars. Mynd/Anton Brink

Matseðill Sigga Gunnars

Hádegismatur

Fyrsta máltíð dagsins hjá mér. Ávallt eitthvað prótein eins og kjúklingur eða fiskur ásamt vænum skammti af blönduðu salati og svo kolvetni eins og smá hrísgrjón, pasta, bygg eða eitthvað í þá áttina. Ef það er í boði þá finnst mér oft gott að fá mér smá súpu á undan.

Millimál

Ég er alltaf á flugi síðdegis og svo í beinni útsendingu sem krefst mikillar orku og yfirsetu, maður skreppur ekki í kaffipásu. Ég er alltaf með Teyg og próteinstykki innan seilingar á þessum tíma. Einföld en góð næring sem líka hjálpar manni að falla ekki í freistni fyrir kexpakkanum.

Kvöldmatur

Svipað og í hádeginu. Yfirleitt vel samsett máltíð með próteini, grænmeti og kolvetnum. Stundum tekst það ekki, stundum er eitthvað í gangi og þá er það bara áfram gakk næsta dag á eftir.

Kvöldsnarl

Ég gæti setið og naslað öll kvöld en ég reyni að halda mig frá því. En ég drekk yfirleitt te, sódavatn eða jafnvel Coke Zero, þó svo að allir segi að maður eigi að láta koffínið í friði á kvöldin.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Matur
20.12.2023

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi
Matur
07.12.2023

Hátíðarbakkinn

Hátíðarbakkinn
Matur
04.11.2023

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu
Matur
03.11.2023

Kjúklingalasagna sem allir elska

Kjúklingalasagna sem allir elska
Matur
20.10.2023

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk
Matur
19.10.2023

Bragðmikil sveppasúpa

Bragðmikil sveppasúpa