Una Guðmundsdóttir matgæðingur DV segir þennan borgara svo sannarlega gera kroppnum gott og ekki skemmir fyrir að hafa sætkartöflufranskar og hvítlaukssósu smeð. Borgarinn er ekki aðeins ferskur og fallegur heldur gerðu allir fjölskyldumeðlimir honum góð skil.
„Ég hef oft miklað það fyrir mér að elda grænmetisborgara, komst svo að því að það er hið minnsta mál, tekur enga stund, góð til-breyting frá klassískum nauta-hamborgurum.“
Uppskrift fyrir fjóra 300 g nýrnabaunir
50 g valhnetur
½ dl ferskur kóríander
1 dl gulrætur
½ laukur
2 stk. hvítlauksrif
1 stk. rauðrófa meðalstór eða 2 stk. litlar
1 msk. ólífuolía
1 tsk. kúmen
1 dl soðin hrísgrjón
1 tsk. dijonsinnep
Salt og pipar að vild
Byrjið á að sjóða hrísgrjón, sigta og setjið í skál.Setjið valhnetur í matvinnsluvél og hakkið þær smátt niður og blandið við hrísgrjónin. Takið næst hvítlauksrifin, gulræturnar og rauðrófuna og rífið niður í rifjárni og blandið saman við grjónin og hneturnar.
Nýrnabaunir eru settar í matvinnsluvél ásamt lauknum og restinni af hráefninu. Hnoðið blönduna svolítið saman og myndið hringlaga buff, setjið á bökunarpappír og inn í ofn í um 25 mínútur á 180 gráðu hita.Berið fram með fersku salati, avókadó, baunaspírum eða því grænmeti sem er í uppáhaldi.
Góð sósa eins og hvítlaukssósa er tilvalin með grænmetisborgaranum, að ógleymdum sætkartöflufrönskum.