„Ef flokkarnir væru skordýr þá væri Björt Framtíð dægurfluga, Píratar mýfluga, Framsókn fiskifluga, Flokkur fólksins drekafluga, Sjálfstæðisflokkurinn kakkalakki, Miðflokkurinn hrossafluga, Samfó býfluga og VG væri maur,“ segir Birgitta Jónsdóttir fyrrum þingmaður Pírata en hún kveðst bera virðingu fyrir fólki í öllum flokkum á sama tíma og hún ber þó ekki endilega virðingu fyrir „kúltúrnum“ í öllum flokkum. Ofangreind ummæli lét Birgitta falla á Facebook síðu sinni fyrr í dag en tilefnið var viðtal sem hún mætti í fyrir útvarpsþáttinn Harmageddon í gær. Þá sagði Birgitta einnig:
Ég lét hreinlega allt flakka um núverandi stjórnmálakreppu, enda þarf ég ekki lengur að hafa áhyggjur af því að orð mín skaði neinn nema sjálfa mig.
Þá spurði Frosti Logason, annar stjórnandi þáttarins hvort hún hefði heyrt í sambandi við stjórnarmyndunarviðræður að Píratar væru orðnir stjórntækari eftir að hún hætti á þingi þar sem hún hefði það orð á sér að vera ólíkindatól. Sagði Birgitta að það væri helbert „Kjaftæði“ og bætti við að hún væri framúrskarandi samningarmaður.
Í umræðum um stjórnarmyndunarviðræður og fjölda flokka á Alþingi líkti Birgitta Sjálfstæðisflokknum við ógeðfellt en þrautseigt skordýr.
Ég hugsa oft um skordýr. Okkur finnst skordýr svolítið ógeðsleg. Allir hata vespur og kóngulær og moskítóflugur. Það er eitt skordýr sem mér finnst sem mér finnst bæði viðbjóðslegt og aðdáunarvert og það er kakkalakki. Hann er með rosalega harðan skráp, hann er ekki einhver dægurfluga sem kemur bara og tekur dægurmálin, heldur er hann búinn að vera að styrkjast í milljón ár. Sjálfstæðisflokkurinn er pínulítið þannig: þeir hafa haft alveg rosalega langan tíma til að búa til ofboðslega sterkar rætur inn í Ísland. Ofboðslega harðan skráp. Þetta er skrápur sem þú kemst ekki í gegnum.
Þá fór Birgitta ekki fegurri orðum um Framsóknarflokkinn og minntist á að eftir hrun hefði verið talað um að „hreinsun“ á flokknum þar sem kúltúr hans yrði breytt.
„Gamla góða Framsókn“ finnstt mér svolítið fyndið. Með fullri virðingu. Það er gott fólk í öllum flokkum en maður verður að skoða ræturnar,“
sagði Birgitta og bætti við á öðrum stað:
„Ég veit að Framsókn er ennþá Framsókn.“
Jafnframt kvaðst Birgitta lítt hrifin af þeim hugmyndum sem sprottið hafa fram í tengslum við umræðuna um stöðu kvenna á Alþingi, að þeim hefði fækkað. Svarið er hennar mati ekki það að búa til vinstri bandalags kvennalista. Slíkt sé „algjört kjaftæði.“
„Við erum ekki að fara að auka fjölda kvenna á þingi með því að búa til einhvern kvennalista með vinstri flokkunum. Það er ekki að fara að breyta neinu.“