„Rúrik er bannað að æfa,“ sagði Hjörvar Hafliðason, sérfræðingur Dr. Football þegar hann ræddi um málefni Rúriks Gíslason hjá Sandhausen í dag en athygli hefur vakið að hann hefur ekki spilað síðustu tvo leiki.
Hjörvar greindi frá því að Rúrik væri bannað að mæta til æfinga eftir að hafa neitað að lækka laun sín. Rúrik er samningslaus í sumar og samkvæmt Hjörvari taldi hann það ekki rétt að lækka laun sín.
Flest félög hafa viljað lækka laun leikmanna vegna kórónuveirunnar en Rúrik taldi það ekki rétt þegar hann er að yfirgefa félagið. „Hann er að verða samningslaus, þeir vildu lækka launin hans en eins og ég kemst að því að þá á Rúrik eftir einn mánuð og datt í stapp við Þjóðverjann,“ sagði Hjörvar.
Sögusagnir hafa verið á kreiki um að Rúrik ætli sér að hætta í fótbolta. „Ég var búinn að heyra það en er ekki viss hvort það sé rétt,“ sagði Hjörvar.
Rúrik er 32 ára gamall en hann hefur leikið erlendis frá árinu 2005.