Fréttablaðið heldur fram að talsamband sé nú á milli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Sigurðar Inga Jóhannssonar. Þar segir að Sigurður Ingi hafi haft frumkvæðið og hringt í Sigmund í gær. Samkvæmt heimildum Eyjunnar er sú atburðarrás sem rakin er í Fréttablaðinu rétt.
Gunnar Bragi Sveinsson þingflokksformaður Miðflokksins staðfesti þetta í morgun í Morgunútvarpinu en hann greindi frá því að formenn allra flokka ræddu nú saman. Erfitt er að mynda ríkisstjórn án aðkomu Framsóknarflokksins og hefur hann átt í óformlegum viðræðum við Sjálfstæðisflokk og svo stjórnarandstöðuna. Gunnar Bragi telur að Sigurður Ingi og Sigmundur Davíð geti vel unnið saman og margir möguleikar séu í stöðunni. Þá sagði hann mikilvægt að traust ríki á milli manna. Sagði Gunnar Bragi að formenn Framsóknarflokksins og Miðflokksins hafi rætt saman mögulegt samstarf.
„Menn eru að tala saman, það er bara þannig. Formennirnir eru að tala saman. Eigum við ekki að segja að það sé nýtt að menn tali á þessum nótum, um samstarf og þess háttar,“ sagði Gunnar Bragi og bætti við:
„Auðvitað þarf að vera traust til staðar, en menn verða líka að vera viljugir til þess að axla ábyrgðina, axla ábyrgðina til að vinna fyrir land og þjóð, og þá verða þeir að sjálfsögðu að sýna traust.“