Það eru góðar líkur á því að allt næsta tímabil í ensku úrvalsdeildinni verði spilað fyrir luktum dyrum. Þetta kemur fram á Sky Sports í dag.
Enska úrvalsdeildin reynir eftir fremsta megni að klára núverandi tímabil, vonir standa til um að hægt verði að hefja tímabilið í byrjun júní. Óvíst er hvort að það takist.
Ljóst er að þeir leikir sem eftir eru fara fram án áhorfenda, fari þeir fram. Nú horfa menn svo í næsta tímabil og búa sig undir tóma velli.
Kórónuveiran hefur haft gríðarleg áhrif á Englandi, á meðan ekkert bóluefni er til við veirunni er erfitt að sannfæra yfirvöld um að leyfa 30-75 þúsund áhorfendur á sama leikinn.
Félögin í deildinni ræða þetta mál þessa stundina og búa sig undir það að spila án áhorfenda langt fram á næsta ár.