„Aðalatriðið er það að ég mun ekki gefast upp. Það er alveg sama hversu oft hún, eða einhver annar mun reyna að skemma verkið, ég mun mæta og laga það. En það er erfitt að ímynda sér hvernig einhver með fullu viti lætur sér detta í hug að gera svona lagað,“ segir spænski myndlistarmaðurinn Juan í samtali við DV. Skemmdarverk voru unnin á götulistaverki hans í vesturbænum nú í morgun, í annað sinn á örfáum dögum.
Super Mario grindverkið hefur slegið í gegn á meðal íbúa Vesturbæjarins eftir að Juan málaði það í nóvember á seinasta ári. Síðastliðinn mánudag greindi Fréttablaðið frá því að kona nokkur á sextugsaldri hefði sést mála yfir grindverkið með grænni málningu. Eins og sést á meðfylgjandi myndum þá málaði konan nánar yfir þann hluta listaverksins sem sýnir Hallgrímskirkju.
Fram kom að eigandi húsins hefði tilkynnt málið til lögreglu. Myndir af konunni að mála yfir listaverkið fóru síðan að birtast í Facebook hóp Vesturbæjarins og viðbrögðin voru mikil. Í kjölfarið tók Juan sig sjálfur til og lagaði verkið.
Nú virðist skemmdarvargurinn hafa látið til skarar skríða á ný. Meðfylgjandi myndir voru teknar af Sigurði Inga Sigurðarsyni, sem keyrði þar fram hjá um hálftólf leytið í morgun. Eins og sjá má á myndinni hefur skemmdarvargurinn að þessu sinni dregið línu yfir allt verkið og lagt sérstaka áherslu á Hallgrímskirkju og textann.
„Manni var auðvitað bara brugðið, því eins því öllum vesturbæingum þá þykir manni vænt um þetta listaverk,“ segir Sigurður í samtali við DV en hann birti myndirnar inni á facebookhópnum Vesturbærinn fyrr í dag, þar sem fjölmargir hafa lýst yfir reiðan og hneyksli.
Ólöf Magnúsdóttir eigandi hússins þar sem grindverkið er, segir í samtali við DV að lögreglan hafi aftur verið kölluð til vegna skemmdarverka konunnar nú í morgun.
„Ég var reyndar föst á fundi í vinnunni en maðurinn minn var heima og hljóp út þegar nágranni okkar hringdi og benti á þetta. Þá var konan farin. Þeir ætla að hafa upp á konunni en lögreglan sagði nú ekkert meira en það. Þeir vita hver þetta er, en geta ekki upplýst okkur um það.
Við fengum leyfi hjá byggingafulltrúa fyrir því að setja verk þarna og því hefur verið tekið mjög vel. Okkur hafa ekki borist kvartanir. Við höfum víst 14 daga núna til að koma með bótakröfu en ég hef bara ekki hugmynd hvernig eitthvað svona er verðmetið. Og þetta er auðvitað verkið hans Juan,“ segir Ólöf jafnframt.