The Telegraph skýrir frá þessu. Fram kemur að konan, Demi Burton, hafi verið ölvuð þegar hún kom um borð í flugvélina og hafi haldið áfram að drekka áfengi um borð. Síðan byrjaði hún að segja óviðeigandi kynferðislega hluti við tvo karla um borð. Hún spurði þá meðal annars hvort þeir vildu stunda kynlíf með henni um borð í vélinni. Það vildu þeir ekki en það hélt ekki aftur af Burton sem hélt áfram að segja óviðeigandi hluti tengda kynlífi. Á endanum neitaði áhöfnin að veita henni meira áfengi.
Það virtist hún ekki skilja og byrjaði að öskra „þá getið þið bara lent núna“. Fyrir dómi kom fram að æðiskast hennar hefði varað í fjórar klukkustundir. Áhöfnin reyndi að róa hana en það skilaði engum árangri því hún skallaði fólk, greip í það og beit. Á endanum þurfti sex manns til að halda henni. Einn þeirra var læknir sem Burton beit og flugfreyja fékk sömu meðferð hjá henni auk þess að vera skölluð í andlitið. Annar fékk spörk í rifbeinin og andlitið.
Fyrir dómi sagði Burton að hún þjáist af flughræðslu og þess vegna hafi hún drukkið áfengi. Hún sagðist sjá eftir því sem hún gerði.