fbpx
Fimmtudagur 03.júlí 2025
Fréttir

Hallgrímur rekur rafmagnsleysið til þeirra sem hafi arðrænt samfélagið: Hvenær verður þýfið sótt?

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 12. desember 2019 19:51

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hallgrímur Helgason rithöfundur skrifar langan pistil undir yfirskriftinni „Kaldir ofnar á Dalvík“. Víða hefur orðið rafmagnslaust fyrir norðan í kjölfar óveðursins í vikunni en Hallgrímur rekur þetta ástand til fleiri þátta en rafmagnsleysisins – nefnlega til meints arðráns í samfélaginu. Innviðirnir hafi verið rústaðir:

Á meðan íslenskir milljarðar njóta ónotaðir sólar á Kýpur og Karabí-eyjum norpar fólkið sem skóp þá rafmagnslaust í ofnköldum húsum sínum Norðanlands. Innvirðirnir okkar hafa verið nagaðir niður af Samherjum þessa lands, ránskerfi kvótans, samstöðu aflendinganna og allra þeirra þingflokka. Hvenær verður þýfið sótt og byrjað að byggja upp vorar fúnu stoðir?

Hallgrímur vill meina að með nýfrjálshyggjunni hafi ríkisstofnanir ýmist verið lagðar niður eða látnar drabbast niður. Jafnframt hafi verið gengið á innviði samfélagsins:

Ég ólst upp við uppbyggingu Íslands en horfði svo upp á skítnýtingu Íslands þar sem sífellt var dregið úr ríkisútgjöldum, gamlir bankar voru dregnir út í ólgusjó fjárglæfra, rótgróin tryggingarfélög samvinnuhugsjónar voru nöguð að innan af óprúttnum eftir-SÍS-glæponum, hrægammar átu allt sem fyrir var, heilu sjóðirnir þurrkuðust upp og útgerðirnar eignuðust öll verðmæti sjávarbyggðanna, þorpin stóðu ýmist eftir sem ryðgaðar beinagrindur (Flateyri, Hrísey) eða virtust fitna af kvótanálægð (Dalvík, Grenivík).

En nú er svo komið að jafnvel sú fitnun var blekking, innviðunum var ekki haldið við, rafmagns- og hitaöryggi var ekki tryggt. Grunnþarfir einstaklinganna voru ekki virtar! Milljarðarnir sem sogaðir voru burt af samherjum hins nýja greifakerfis voru hreinlega of margir. Ísland var rænt á gríðarstórum skala og þjófarnir hafa aldrei verið yfirheyrðir, hvað þá dæmdir. Aflandskóngar sitja jafnvel á Alþingi og í ráðherrastólum, eru formenn stórra flokka og svífast einskis í varðstöðu sinni um innviðanögun samfélagsins.

Hallgrímur segir að peningarnir til að styrkja innviðina á ný séu til en það þurfi að sækja þá:

Í þrítugasta skipti frá Hruni á nú að skera niður á Landspítalanum. (Eruð þið ekki að djóka í okkur?!) Og fyrir norðan norpa starfsmenn Samherja í köldum húsum sínum á Dalvík og skjótast út í bíl til að hlaða símann, heilum sólarhring eftir veður.

Milljarðarnir til að gera við götin í kerfunum okkar eru til. Þeir sóla sig á suðurhafseyjum. Enginn virðist hinsvegar hafa afl né vilja til að sækja þá, samherjarnir á þingi og í ríkisstjórn tala hverja tilraun niður. Og löggan er ekki einu sinni búin að handtaka Þorstein Má…

Þeir reistu fólkinu flottustu fiskvinnslu í heimi, en tóku svo óvart hitann af ofnunum þeirra.

 

Pistilinn má lesa í heild hér fyrir neðan:

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Eftirlýstur hælisleitandi úrskurðaður í gæsluvarðhald eftir að hafa forðast brottvísun í tæp 3 ár

Eftirlýstur hælisleitandi úrskurðaður í gæsluvarðhald eftir að hafa forðast brottvísun í tæp 3 ár
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Alvarleg staða á Landspítalanum – Ófaglærðir halda starfseminni gangandi þegar kemur að hjúkrun og umönnun

Alvarleg staða á Landspítalanum – Ófaglærðir halda starfseminni gangandi þegar kemur að hjúkrun og umönnun
Fréttir
Í gær

Sífellt fleiri kalla eftir því að 71. greininni verði beitt gegn málþófi stjórnarandstöðunnar

Sífellt fleiri kalla eftir því að 71. greininni verði beitt gegn málþófi stjórnarandstöðunnar
Fréttir
Í gær

Segir stjórnarandstöðuna leggja fæð á Ingu Sæland og hindra framfaramál með botnlausu málþófi

Segir stjórnarandstöðuna leggja fæð á Ingu Sæland og hindra framfaramál með botnlausu málþófi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Skemmdarverk á Seltjarnarnesi – Lögreglan leitar vitna

Skemmdarverk á Seltjarnarnesi – Lögreglan leitar vitna
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kemur fram á lokatónleikum Black Sabbath þrátt fyrir að hafa verið skotinn margsinnis – Árásarmennirnir gómaðir

Kemur fram á lokatónleikum Black Sabbath þrátt fyrir að hafa verið skotinn margsinnis – Árásarmennirnir gómaðir