fbpx
Mánudagur 20.maí 2024
Eyjan

Minningar úr Stúdentos

Egill Helgason
Mánudaginn 18. nóvember 2019 21:09

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Myndin þessi er tekin á ofanverðum áttunda áratugnum á stað sem hét Stúdentakjallarinn. Hann var í kjallara Gamla Garðs og var um tíma feiki vinsæll samkomustaður, ekki bara fyrir stúdenta, heldur líka fyrir fólk utan úr bæ, unga menningarvita og bóhem. Ég sótti staðinn býsna grimmt á árunum í kringum 1980. Það var tími léttvínsbyltingarinnar – það voru gerðar tilslakanir og allt í einu mátti fólk kaupa sér vínflöskur á veitingahúsum án þess að borða mat með. (Boðin og bönnin á Íslandi á tímanum þegar ég var að alast upp voru bæði dularfull og duttlungafull).

Stúdentakjallarinn reið á vaðið með að selja vín í flöskum til gesta sinna –  vinsælustu tegundirnar voru Mattheus-rósavín og hvítvínstegundirnar Blue Nun og Riesling Anhauser. Einnig þykist ég muna eftir einhverri tegund af Beaujolais rauðvíni. Úrvalið var að sönnu ekki fjölbreytt.

En af þessu varð mikið mannlíf og í Stúdentakjallaranum kynntist maður alls konar fólki. Það voru heldur ekki allir jafn ungir, þeir sem ég man einna best eftir voru Dagur Sigurðarson skáld og Andrés Kolbeinsson óbóleikari. Svo voru erlendir stúdentar sem þvældust þarna inn, einum man ég eftir sem kallaðist Mario, þóttist tala allar heimsins tungur en gekk fjarska illa að læra íslensku. Það var ekki mikið af útlendingum á Íslandi á þessum árum.

Stundum voru líka haldnir tónleikar í Stídentos – eins og staðurinn var stundum kallaður – og bókmenntakvöld. Ég man eftir Einari Má og Einari Kárasyni flytjandi kvæði og Ingólfi Margeirssyni leikandi á píanó og gítar – en það var liklega óskipulagt. Svo kom þarna stundum maður sem hét Harold Clayton, hann var tónlistarmaður, kunni þó lítið í tónlist – en flutti list sína af mikilli innlifun, var þess á milli alveg óstöðvandi í frásögnum sínum af því hvernig væri að svelta og þjást fyrir listina. Hafði líka kynnst þekktum bítnikkum í Ameríku Ég skrifaði seinna frásögn af Harold og lífinu í Stúdentakjallaranum í Tímarit Máls & menningar undir heitinu Níunda sinfónía Haralds Clayton.

Margir af fastagestunum í Stúdentakjallaranum áttu ekki mikinn pening. En það var oft hægt að skjóta saman í rósavínsflösku sem var ekki tiltakanlega dýr. Þetta var fyrir myntbreytingu, mig minnir að verðið hafi verið 2200 – gæti verið misminni.

Það er Jón Arnarr sem birtir myndina á Facebook. Hann var einn af hönnuðum Stúdentakjallarans. Það verður að segjast eins og er að í minningunni var þetta alveg prýðilegur staður, oftast friður og ró, og margt fólk sem var hægt að spjalla við og blanda geði. Fásinnið var ansi mikið á þeim árum. Í Miðbænum var ekki opinn einn einasti staður af þessu tagi, engin krá, engin vínstofa. Stúdentakjallarinn var að mig minnir opinn til 11.30, á fimmtudagskvöldum gat maður stundum rölt þangað niður í Óðal sem var opið til klukkan eitt eftir miðnætti. Öðru var varla til að dreifa.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Svarthöfði skrifar: Ríkismiðlarnir snúa saman bökum

Svarthöfði skrifar: Ríkismiðlarnir snúa saman bökum
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Baldur Þórhallsson – Málskotsrétturinn var virkur þegar Vigdís íhugaði að skrifa ekki undir EES

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Baldur Þórhallsson – Málskotsrétturinn var virkur þegar Vigdís íhugaði að skrifa ekki undir EES
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Kolbrún komin með nóg af bókhaldslykla-kraðaki og segir að borgin eigi ekki að rannsaka sig sjálf í umdeildu málunum

Kolbrún komin með nóg af bókhaldslykla-kraðaki og segir að borgin eigi ekki að rannsaka sig sjálf í umdeildu málunum
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Halla Hrund – Endurreisa þarf forgang almennings til orku hér á landi

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Halla Hrund – Endurreisa þarf forgang almennings til orku hér á landi
Eyjan
Fyrir 1 viku

Umsækjandi um varaseðlabankastjórastöðu fékk tugmilljóna félag frá lögmanni sem rukkar bankann um hundruð milljóna

Umsækjandi um varaseðlabankastjórastöðu fékk tugmilljóna félag frá lögmanni sem rukkar bankann um hundruð milljóna
Eyjan
Fyrir 1 viku

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Halla Hrund – Mögnum tækifærin á hverjum stað og stækkum tækifæri okkar allra

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Halla Hrund – Mögnum tækifærin á hverjum stað og stækkum tækifæri okkar allra