Disney-myndin Frozen, eða Frosin, sem fjallaði um dramatíska sögu systranna konungbornu Elsu og Önnu, fór sigurför um heiminn árið 2013 og ráðgert er að framhald muni líta dagsins ljós á næstu árum. Svo skemmtilega vill til að leikkonurnar, Ágústa Eva Erlendsdóttir og Þórdís Björk Þorfinnsdóttir, sem fóru með hlutverk systranna í íslensku talsetningunni, eiga báðar von á barni síðar á árinu. Samkvæmt nokkuð traustum heimildum DV komu frosnir fósturvísar ekki við sögu heldur voru börnin getin með náttúrulegum hætti.
Ágústa Eva, sem lætur sífellt meira til sín taka sem söngkona, á von á sér í nóvember. Ítarlega hefur verið fjallað um samband hennar við verðandi barnsföður, Aron Pálmason, sem að öðrum ólöstuðum er einn dáðasti íþróttamaður landsins. Parið hefur ekki gefið út opinberlega hvort von sé á dreng eða stúlku.
Leiklistarneminn Þórdís Björk á von á sér í október og ber dreng undir belti. Barnsfaðir hennar er tónlistarmaðurinn góðkunni, Logi Pedro Stefánsson. Þau voru í sambandi til margra ára en upp úr því slitnaði rétt áður en hinn duldi ávöxtur ástarinnar kom í ljós. Skjötuhjúin hafa þó ekki farið leynt með að þau eru samstiga í meðgöngunni.
Þórdís hefur getið sér gott orð í talsetningu á auglýsingum og sjónvarpsefni. Hennar stærsta hlutverk fyrir utan Önnu prinsessu er eflaust rödd Poppí í Tröllunum.