fbpx
Mánudagur 29.apríl 2024
Pressan

Nokkrar af undarlegustu samsæriskenningum síðari tíma – Seinni hluti

Kristján Kristjánsson
Sunnudaginn 17. nóvember 2019 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hér höldum við áfram umfjöllun um nokkrar af undarlegustu samsæriskenningum síðari tíma en fyrri hlutinn var birtur í síðasta tölublaði DV.

Díana prinsessa var myrt

Breska konungsfjölskyldan er vinsæl hjá samsæriskenningasmiðum og kannski ekki að furða því meðlimir hennar eru mikið í fréttum og ýmis mál hafa komið upp tengd fjölskyldunni. Segja má að samsæriskenningasmiðir hafi verið í essinu sínu í kjölfar andláts Díönu prinsessu sem lést í bílslysi í París í ágúst 1997. Þá fóru strax á kreik kenningar um að hún hefði verið myrt. Fjölmargar rannsóknir hafa farið fram á atburðarásinni sem leiddi til andláts Díönu og fjölmargir sérfræðingar hafa komið að þeim. Niðurstaða þeirra allra er á þá leið að það hafi verið bílstjóra hennar, Henri Paul, að kenna að slysið átti sér stað því hann hafði neytt áfengis fyrir aksturinn. Þetta hefur þó ekki dugað til að halda aftur af samsæriskenningasmiðum sem eru margir sannfærðir um að hér hafi verið um samsæri á vegum breskra stjórnvalda að ræða. Það hefur styrkt þá í sannfæringu sinni að Mohamed al-Fayed, faðir Dodi al-Fayed sem einnig lést í slysinu, hefur haldið því fram að skötuhjúin hafi verið myrt að skipan bresku konungsfjölskyldunnar sem gat ekki hugsað sér að móðir verðandi konungs, Vilhjálms prins, ætti barn með syni hans því hann væri múslimi. Þessar samsæriskenningar komust á svo mikið flug, ekki dró úr dreifingu þeirra að dagblaðið Daily Express fjallaði mikið um þær, að Lundúnalögreglan sá sig tilneydda til hefja sérstaka rannsókn á sannleiksgildi þessara kenninga. Rannsóknin kostaði milljónir punda. Niðurstaða hennar var að ekkert væri hæft í þessum samsæriskenningum.

Díana og Karl á brúðkaupsdaginn.

Finnland er ekki til

Flest ef ekki öll vitum við að Finnland er eitt norrænu ríkjanna og að þar búa að mestu Finnar. En samkvæmt kenningu sem fór af stað á samfélagsmiðlinum Reddit árið 2016 þá er Finnland bara ekki til! Samkvæmt kenningunni þá er Finnland bara hluti af Eystrasalti og fólk sem segist búa þar býr í raun í austurhluta Svíþjóðar, vesturhluta Rússlands eða norðurhluta Eistlands. Þetta fór af stað sem brandari en vatt fljótt upp á sig og hefur verið á nokkru flugi um netheima síðan. Út frá þessari kenningu spunnust margar aðrar tengdar þessu máli. Þar á meðal ein sem útskýrði af hverju Rússar og Japanir hefðu ákveðið árið 1918 að skálda upp tilvist Finnlands. Samkvæmt þeirri kenningu ákváðu Rússar og Japanir að „búa“ Finnland til svo Japanir gætu stundað fiskveiðar á hafsvæði sem væri í raun og veru til án þess að þurfa að sæta kvörtunum umhverfissinna vegna veiðanna. Fiskurinn sem veiðist þarna er að sögn síðan sendur með járnbrautalest í gegnum Rússland og Síberíu til Japan undir þeim formerkjum að verið sé að flytja vörur frá Nokia. En hefðu önnur ríki ekki tekið eftir þessu? Jú, segja samsæriskenningasmiðir en þau hafa að þeirra sögn ákveðið að halda þessu leyndu og leyfa „Finnlandi“ að vera til og gegna einhvers konar hlutverki fyrirmyndar betri heims. Ekkert ríki getur að þeirra mati náð svo góðum árangri í menntakerfinu, heilbrigðismálum, jafnrétti kynjanna, hlutfalli læsra landsmanna, pólitískum stöðugleika, lítilli spillingu, frelsi fjölmiðla og fleiru að mati samsæriskenningasmiða. Hér sé því um að ræða ríki, sem ekki er til sem ríki og fólk getur sótt hvatningu til.

Meghan Markle er vélmenni

Meghan Markle, eiginkona Harrys Bretaprins, er umdeild og mikið í kastljósi fjölmiðla og almennings. Í júni birtist myndskeið sem sýndi hana og Harry horfa á úrslitakvöld Britain‘s Got Talent. Á upptökunni sjást hjónin sitja meðal almennra áhorfenda og klappa og fagna eins og aðrir en þau sýna að sögn engin svipbrigði, blikka ekki einu sinni augunum. Þetta hratt af stað samsæriskenningum um að hjónin séu bæði vélmenni eða eigi vélmenni sem þau geti látið sinna opinberum skyldum sínum. En það sem samsæriskenningasmiðir hafa ekki látið trufla sig við smíðar sínar er að hér var um auglýsingu að ræða á vegum Madame Tussauds-vaxmyndasafnsins í Lundúnum. Rétt er að hjónin voru ekki til staðar á sýningunni. Hér var einfaldlega um tvo leikara að ræða og voru þeir með grímur til að líkjast hertogahjónunum sem mest.

Meghan Markle Getur verið að hún sé vélmenni?

Svæði 51

Því hefur lengi verið haldið fram að geimfar frá annarri plánetu hafi brotlent í Roswell í Nýju-Mexíkó í Bandaríkjunum 1947. Bandaríkjaher hefur vísað þessu á bug og segir að hér hafi verið um veðurloftbelg að ræða. Sú skýring hefur ekki hugnast samsæriskenningasmiðum sem hafa lengi haldið því fram að geimfarið hafi verið flutt á Svæði 51 (Area 51) í Nevadaeyðimörkinni og þar sé það geymt. Einnig hafa þeir haldið því fram að lifandi geimverur og fleiri geimför séu þar og að Bandaríkjaher hafi stundað umfangsmiklar rannsóknir á geimverum og fararskjótum þeirra. Meðal annars hefur verið birt myndskeið af „krufningu á geimveru“ en sýnt hefur verið fram á að það er falsað. Það eykur auðvitað á dulúðina og samsæriskenningar að Svæði 51 er harðlokað og vel gætt af hermönnum.

Hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin 2001

Þann 11. september 2001 rændu hryðjuverkamenn á vegum al-Kaída fjórum farþegaflugvélum í Bandaríkjunum. Tveimur þeirra var flogið á Tvíburaturnana í World Trade Center í New York. 2.996 manns létust. Margir samsæriskenningasmiðir telja að árásirnar hafi verið runnar undan rifjum Bandaríkjamanna sjálfra. Markmiðið hafi verið að tryggja stöðu Bandaríkjanna sem öflugasta ríkis heims eða til að tryggja aðgang þeirra að olíulindum í Miðausturlöndum. Önnur kenning er að eigendur Tvíburaturnanna hafi staðið á bak við árásirnar til að fá tryggingafé greitt en þeir eru sagðir hafa hagnast um 500 milljónir dollara.

Sorgardagur Hryðjuverkin 11. september.

Helförin átti sér ekki stað

Ein langlífasta samsæriskenning sögunnar er að helförin hafi ekki átt sér stað. Í henni myrtu nasistar sex milljónir gyðinga í síðari heimsstyrjöldinni. Sannanir fyrir helförinni eru margar, mörg þúsund ljósmyndir, hreyfimyndir og frásagnir fólks sem slapp lifandi frá þessu. En það virðist ekki skipta suma máli og vefengja þeir þessi sönnunargögn. Þeir halda því margir fram að helförin sé blekking, sett á svið af gyðingum til að efla völd þeirra og áhrif. Margir þeirra geta þó fallist á að nasistar hafi myrt einhverja gyðinga en segja tölurnar stórlega ýktar.

Fulllangt gengið Sumir segja að helförin sé uppspuni.

Tunglferðirnar

Það markaði mikil tímamót í sögu mannkynsins þegar Neil Armstrong steig fyrstur manna fæti á tunglið 1969. Þetta var mikið afrek á þeim tíma og er enn, en tunglið er eini staðurinn utan jarðarinnar þar sem menn hafa stigið niður fæti enn sem komið er. En tunglferðirnar og lendingarnar þar hafa verið samsæriskenningasmiðum uppspretta margvíslegra kenninga og efasemda. Ein sú langlífasta er að menn hafi aldrei farið til tunglsins, allt hafi þetta verið sviðsett af bandarísku geimferðastofnuninni NASA. Það er margt sem sannar að menn hafi farið til tunglsins, þar má meðal annars nefna að geimfararnir komu með jarðveg og grjót frá tunglinu aftur til jarðarinnar og þeir skildu manngerða hluti eftir á tunglinu.

Morðið á John F. Kennedy

Það er auðvitað ekki hægt að fjalla um samsæriskenningar án þess að minnast á morðið á John F. Kenndy forseta í Dallas 1963 með. Lee Harvey Oswald játaði morðið á sig en var skotinn til bana áður en réttað var yfir honum. En var hann morðinginn? Var hann aðeins blóraböggull sem átti að taka sökina á sig? Sluppu hinir raunverulegu morðingjar? Samsæriskenningar hafa verið á kreiki um morðið allt frá 1963 og snúa að ýmsu. Því hefur verið haldið fram að sovéska leyniþjónustan KGB hafi staðið á bak við það eða að eiginkona forsetans, Jackie Kennedy, hafi skipulagt það.

Hver drap JFK? Verður þessari spurningu einhvern tímann svarað?

Öreindahraðallinn í Sviss mun opna hlið helvítis

Samsæriskenningasmiðir um allan heim hafa verið ósáttir við öreindahraðalinn (Cern Large Hadron Collider) á landamærum Sviss og Frakklands. Þegar hann var gangsettur í fyrsta sinn 2008 óttuðust margir að þegar öreindirnar, sem væru sendar eftir honum á nánast ljóshraða, myndu mynda svarthol sem myndi gleypa jörðina samstundis. En við erum hér enn svo þetta voru greinilega óþarfa áhyggjur. En það hefur ekki róað samsæriskenningasmiði sem smíðuðu síðan kenningar um að öreindahraðallinn myndi opna einhvers konar hlið á milli jarðarinnar og annarrar tilveru sem gæti verið allt frá öðrum alheimi til ormaganga eða jafnvel myndi hliðið að helvíti opnast.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 4 dögum

Nokkur ráð til að losna undan símafíkninni

Nokkur ráð til að losna undan símafíkninni
Pressan
Fyrir 4 dögum

Unglingur dæmdur í ævilangt fangelsi – Stakk ellilífeyrisþega í hjartað

Unglingur dæmdur í ævilangt fangelsi – Stakk ellilífeyrisþega í hjartað