fbpx
Fimmtudagur 18.september 2025

Boris færist nær

Ritstjórn DV
Laugardaginn 15. júní 2019 14:00

Boris Johnson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Allar líkur eru á að Boris Johnson verði næsti formaður Íhaldsflokksins í Bretlandi og þar með forsætisráðherra landsins þar sem flokkurinn leiðir ríkisstjórn. Boris hefur verið fráfarandi forsætisráðherra, Theresu May, óþægur ljár í þúfu og fer fremstur í flokki Brexit-sinna.

Johnson fékk langflest atkvæði í annarri umferð atkvæðagreiðslu flokksins og eru nú aðeins sjö frambjóðendur eftir. Johnson fékk alls 114 atkvæði en í öðru sæti var Jeremy Hunt með 43. Nýr formaður tekur við þann 22. júlí næstkomandi. En hver er Boris Johnson?

 

Nefndur eftir sovéskum flóttamanni

Fullt nafn hans er Alexander Boris de Pfeffel Johnson. Hann er fæddur þann 19. júní árið 1964 á Manhattan-eyju í New York. Foreldrar hans eru albreskir en Johnson er engu að síður með tvöfalt ríkisfang, breskt og bandarískt. Hann var nefndur Boris eftir sovéskum flóttamanni sem foreldrar hans þekktu.

Johnson er af efnuðu fólki kominn og gekk í fínan einkaskóla. Fimm ára gamall flutti hann með fjölskyldu sinni til Lundúna en um tíma bjó fjölskyldan í Brussel þar sem faðir hans, Stanley, starfaði fyrir Evrópuráðið. Sem barn glímdi hann við heyrnarskerðingu en gekk þó einstaklega vel í tungumálanámi.

Eins og margir ungir menn á framabraut gekk Johnson í bæði Eton og Oxford. Þar varð hann vinsæll og þótti einstaklega vel máli farinn. Hann lék ruðning, gekk í bræðralag og varð forseti stúdentafélagsins.

Á háskólaárunum kynntist hann Allegru Mostyn-Owen, sem var af aðalsættum, og fljótlega trúlofuðust þau. Eftir útskrift árið 1987 giftust Johnson og Mostyn-Owen en hjónabandið varði aðeins í sex ár. Árið 1993 kvæntist hann lögmanninum Marinu Wheeler en þau standa nú í skilnaði. Johnson á alls fimm börn.

 

Uppáhaldsblaðamaður Margrétar Thatcher

Eftir útskrift hófst ferill Johnson sem blaðamaður og þar átti hann eftir að verða áberandi og umdeildur. Árið 1987 var hann rekinn frá dagblaðinu The Times eftir að hafa falsað tilvitnun en fékk þá starf hjá The Daily Telegraph, sem gjarnan er flokkað á hægri vængnum. Þar byrjaði hann að láta stjórnmálaskoðanir sínar í ljós, sérstaklega efasemdir um veru Bretlands í Evrópusambandinu. Varð hann að uppáhaldsblaðamanni forsætisráðherrans Margaret Thatcher. Á níunda áratugnum var Johnson þekktur fyrir pólitíska pistla sína og sýndi áhuga á að bjóða sig sjálfur fram til embættis.

Árið 2001 var Johnson kjörinn á breska þingið og endurkjörinn árið 2005. Á sínum þingmannsferli komst hann nokkrum sinnum í slúðurblöðin fyrir meint framhjáhöld og barneignir utan hjónabands.

 

Klaufalegur borgarstjóri

Johnson var óvænt kjörinn borgarstjóri Lundúna árið 2008 og bar sigurorð af „Rauða“ Ken Livingstone. Kosningabaráttan byggðist á að ná til úthverfafólks og beita sér fyrir fækkun glæpa og uppfærðu vegakerfi. Ýmis ummæli voru hins vegar dregin fram í dagsljósið sem verða að teljast rasísk og niðrandi í garð samkynhneigðra.

Árið 2012 var hann endurkjörinn en þá var hann orðinn þekktur utan landsteinanna. Fólki fannst eitthvað sniðugt við þennan ljóshærða og úfna klaufabárð sem elskaði ruðning.

 

Beið síns tíma

Johnson kom aftur inn á þingið árið 2015, en þá hafði David Cameron forsætisráðherra gefið loforð um þjóðaratkvæðagreiðslu um veru landsins í Evrópusambandinu. Johnson hljóp að sjálfsögðu á „Brexit-vagninn“ gegn formanninum.

Eftir að úrslit kosninganna voru ljós hrökklaðist Cameron frá völdum og nýr forsætisráðherra, Theresa May, gerði Johnson að utanríkisráðherra. En vandræði stjórnarinnar með að leysa hnútinn hafa engum dulist og harðlínu Brexit-sinnar eins og Johnson óánægðir með stefnu May. Í júlí í fyrra sagði Johnson af sér embætti. Síðan þá hefur hann setið á meðal „bakbekkjunga“ eða valdalítilla þingmanna og beðið eftir að stóllinn hryndi undan May. Það er nú að raungerast og tími Johnson að renna upp.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 klukkutímum

„Besti bústaður í heimi er kominn á sölu. Þarna er í alvöru best að vera“

„Besti bústaður í heimi er kominn á sölu. Þarna er í alvöru best að vera“
Fréttir
Fyrir 3 klukkutímum

Sótt að ungum Sjálfstæðismönnum úr þeirra eigin röðum – „Hvert er Sjálfstæðisflokkurinn að fara?“

Sótt að ungum Sjálfstæðismönnum úr þeirra eigin röðum – „Hvert er Sjálfstæðisflokkurinn að fara?“
Fréttir
Fyrir 3 klukkutímum

Varað við svikahröppum sem þykjast vera heyrnarlausir

Varað við svikahröppum sem þykjast vera heyrnarlausir
Pressan
Fyrir 4 klukkutímum

Ræddi við þá sem þekktu skotmanninn best og segir fjölmiðla og yfirvöld mála upp ranga mynd af skoðunum hans

Ræddi við þá sem þekktu skotmanninn best og segir fjölmiðla og yfirvöld mála upp ranga mynd af skoðunum hans
Fókus
Fyrir 4 klukkutímum

Frönsku forsetahjónin heita því að sanna að forsetafrúin sé líffræðileg kona

Frönsku forsetahjónin heita því að sanna að forsetafrúin sé líffræðileg kona
433Sport
Fyrir 5 klukkutímum
Messi að skrifa undir
Fréttir
Fyrir 6 klukkutímum

Þórhallur fer af stað með Draumaliðsdeild Alþingis

Þórhallur fer af stað með Draumaliðsdeild Alþingis
Fókus
Fyrir 6 klukkutímum

Sprenghlægileg viðbrögð Jennifer Aniston við raunverulegu nafni Reese Witherspoon

Sprenghlægileg viðbrögð Jennifer Aniston við raunverulegu nafni Reese Witherspoon
Fókus
Fyrir 8 klukkutímum

Guðrún Sørtveit: „Það hefur alltaf verið rosalega sterkt í mér að verða mamma“

Guðrún Sørtveit: „Það hefur alltaf verið rosalega sterkt í mér að verða mamma“
Pressan
Fyrir 8 klukkutímum

Varaforsetinn segir tjáningarfrelsið ekki gilda um þá sem fagna andláti Charlie Kirk

Varaforsetinn segir tjáningarfrelsið ekki gilda um þá sem fagna andláti Charlie Kirk