„Ég er vongóður um niðurstöðuna og tel að dómur Landsréttar hafi verið of strangur. Blaðamenn vinna við mjög erfiðar aðstæður og það verður að vera skilningur á því,“ segir Gunnar Ingi Jóhannsson, lögmaður blaðamannsins Atla Más Gylfasonar, í samtali við DV, en Hæstiréttur hefur fallist á að taka fyrir áfrýjun Atla Más eftir að Landsréttur hafði dæmt Atla til að greiða Guðmundi Spartakusi Ómarssyni 1,2 milljónir króna í miskabætur fyrir ummæli sem birtust í umfjöllun Atla í Stundinni. Visir.is hefur greint frá málinu.
„Dómur í þessu máli getur haft almennt gildi um heimildir fjölmiðla til að fjalla um rannsókn sakamála og byggja á ónafngreindum heimildarmönnum. Auðvitað vitum við ekki hver niðurstaðan verður en það kemur kannski gott fordæmi frá Hæstarétti,“ segir Gunnar Ingi við DV.
Fréttin sem kærð var birtist í Stundinni 1. des. árið 2016. Þar eru leiddar líkur að því að Guðmundur Spartakus eigi sök á dauða Friðriks Kristjánssonar. Í fréttinni sagði meðal annars:
„Hvað kom fyrir Friðrik? Hvað gerðist eftir 31. mars? Tengist þetta íslenskum skipulögðum glæpasamtökum? Eru hryllingssögurnar sem gengu um undirheima um hvarf Friðriks á rökum reistar? Var Friðrik tekinn af lífi á hrottafenginn hátt í beinni útsendingu á Skype? Lét hann sig hverfa sporlaust? Er lögreglan með upplýsingar sem benda til þess að hvarf Friðriks hafi borið að með saknæmum hætti? Hafa lögregluyfirvöld í Paragvæ leitað hans í reynd? Hvar er Friðrik?“
Guðmundur Spartakus fór fram á ómerkingu 30 ummæla úr fréttinni þar sem viðmælendur Atla Más báru hann sökum. Atli Már vann málið fyrir héraðsdómi en Landsréttur sneri dómnum við og ómerkti 23 ummæli og dæmdi Atla Má til greiðslu fyrrnefndra skaðabóta. Atli áfrýjaði þeim dómi til Hæstaréttar og nú hefur Hæstiréttur fallist á að taka málið fyrir.
Litlar líkur á að málið fari fyrir Mannréttindadómstól Evrópu
Gunnar Ingi segir að sú staðreynd að Hæstiréttur hafi fallist á að taka málið fyrir minnki mjög líkur á að leitað verði til dómstóla erlendis. „Með þessu kerfi þar sem boðið er upp á málsmeðferð fyrir þremur dómstólum þá minnkar löngunin til að leita til erlendra dómstóla.“
Gunnar Ingi er bjartsýnn á niðurstöðu Hæstaréttar fyrir hönd skjólstæðings síns.
Atli Már sjálfur fagnar dómnum og skrifar á Facebook-síðu sína:
„Þetta eru gleðitíðindi á sólríkum degi. Það þýðir ekkert að gefast upp. Réttlætið sigrar að lokum.“