Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar – stéttarfélags, er í hópi þeirra sem telja að Íslendingar hefðu átt að sniðganga Eurovision vegna hernáms Ísraelsmanna á Vesturbakkanum og til stuðnings Palestínumönnum. Hann vandar Hatara ekki kveðjurnar í stuttum en háðsfullum pistli á Facebook-síðu sinni þar sem hann spyr hvort fólk ætli að safna fæ fyrir lögfræðiaðstoð handa forsprökkum Hatara og heimsækja þá í fangelsið. Gefur Viðar lítið fyrir uppákomuna á keppniskvöldinu þegar Hatari flaggaði palestínskum fánum:
Hinir íslensku Hatara-bræður hafa með hugrekki sínu ritað sig á spjöld sögunnar við hlið Rosu Parks og Nelson Mandela. Þeir buðu valdinu byrginn, lögðu allt undir og kærðu sig kollótta um hugsanlegar afleiðingar fyrir eigin lífsafkomu og öryggi. Nú er komið að okkur hinum — eruð þið klár að safna fé fyrir lögfræðiaðstoð, bjóða þeim aðsetur í sendiráðum ykkar og rita þeim bréf í fangelsið?