Hljómsveitinni Hatara hafa borist fjöldi hótana og haturspósta. Skipuleggjendur Eurovision taka málið það alvarlega að lögreglan í Ísrael er með það á sínu borði. Þetta kemur fram í viðtali við hljómsveitina í Reykjavík Grapevine.
Í viðtalinu segir Klemens að lögregla hafi kannað málið. „Skipuleggjendur Eurovision létu lögregluna kanna hvort það væri meiri hætta af þátttöku okkar en annarra tónlistamanna í keppninni,“ segir Klemens.
Sjá einnig: Allt á suðupunkti í Ísrael vegna Hatara: „Eitrum matinn þeirra ef þeir eru í Ísrael“
Mattías bætir við þetta: „Eitt af því sem þeir báðu okkur um að gera var að safna saman öllum hótunum sem okkur hefur borist. Við fórum því í kommentakerfi frétta um okkur í ísraelskum fjölmiðlum. Til að mynda Jerusalem Post, þar eru mjög óhugnanlegar athugasemdir. Ég elska samt Haaretz. Ég gerðist áskrifandi þeirra í síðasta mánuði,“ segir hann.
DV hefur áður fjallað um hrollvekjandi hótanir í garð Hatara í athugasemdarkerfum ísraelskra fjölmiðla. Í athugasemdum við frétt um að hljómsveitin hafi skorað forsætisráðherra Ísraels, Benjamin Netanyahu, á hólm í glímu mátti finna mjög gróf ummæli. „Eitrum matinn þeirra ef þeir eru í Ísrael,“ skrifaði til að mynda einn maður.
Hatari býr sig nú undir keppnina sjálfa en sveitin stígur á svið í undanriðlinum á þriðjudag. Sjálft úrslitakvöldið fer svo fram á laugardag. Hatara hefur verið spáð góðu gengi hjá veðbönkum og spá flestir því að sveitin verði í einu af tíu efstu sætunum.