

Lítil stemning er í þjóðfélaginu fyrir Samfylkingunni. Margir hafa haft á orði að það eina sem geti bjargað flokknum frá því að mást út af hinu pólitíska korti sé róttæk endurnýjun á forystusveitinni. Tilraun til endurnýjunar var gerð um síðustu helgi þegar Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, var kjörin varaformaður flokksins. Hún er eiginkona Hrannars Arnarssonar, fyrrverandi aðstoðarmanns Jóhönnu Sigurðardóttur. Það vakti nokkra athygli og taldist til tíðinda þegar Jóhanna lýsti yfir stuðningi við Heiðu Björgu í prófkjörsslag Samfylkingarinnar fyrir borgarstjórnarkosningarnar árið 2014. Segja má að með kjöri Heiðu Bjargar í varaformannsembætti flokksins sé Jóhönnu-armurinn aftur kominn til vissra áhrifa í flokknum. Ekki er þetta sú róttæka uppstokkun sem ýmsir Samfylkingarmenn telja brýna þörf á. Reyndar er stemningarleysið innan Samfylkingarinnar svo mikið að enginn annar en Heiða Björg sýndi áhuga á varaformannsembættinu. Hún var því sjálfkjörin.