fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Eyjan

Gengi bréfa í Icelandair hrapar í kjölfar flugslyss – Þingmaður hvetur til kyrrsetningar

Ritstjórn Eyjunnar
Mánudaginn 11. mars 2019 11:06

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eftir að flugvél af gerðinni Boeing 737 MAX 8 fórst í Addis Ababa í Eþíópíu í gær, hefur gengi hlutabréfa í Icelandair hríðfallið í morgun. Nemur lækkunin um 11 prósentum þegar  þetta er ritað, í rúmlega 70 milljón króna viðskiptum.

Vélin sem fórst er af sömu gerð og sú sem fórst skömmu eftir flugtak í Jakarta í Indónesíu í október í fyrra, en Icelandair er með þrjár vélar sömu gerðar í sinni þjónustu og stefnir á að fá fleiri slíkar vélar, því félagið hefur tryggt sér kauprétt á samtals 16 vélum af gerðinni, MAX 8 og MAX 9.

Hlutabréfaverð í Boeing hefur einnig lækkað í dag, um tæplega 11 prósent í Bandaríkjunum og tæplega 8 prósent í Þýskalandi.

Kínversk yfirvöld hafa brugðið á það ráð að kyrrsetja allar vélar Boeing af þessari gerð í kjölfar slyssins í Eþíópíu, þar sem 157 létust.Alls eru 96 slíkar vélar í Kína og samkvæmt kröfu yfirvalda eiga þær allar að verða kyrrsettar fyrir klukkan 18 að staðartíma í dag.

Framkvæmdarstjóri rekstrarsviðs Icelandair, Jens Þórðarson, sagði í gær að fylgst væri með málinu, en á meðan væri engin ástæða til að óttast. Ekki væri tímabært að ræða kyrrsetningu á vélum félagsins:

„Við erum að bíða eftir því að fólk átti sig og við tökum stöðuna þegar eitt­hvað kemur í ljós um á­stæður slyssins, en enn sem komið er engin á­stæða til að óttast þessar vélar,“

sagði Jens við Fréttablaðið.

Hvetur til kyrrsetningar

Oddný G. Harðardóttir, þingflokkformaður Samfylkingarinnar, spyr hvenær sé tímabært að tengja saman slysin tvö:

,,Icelandair gerir út þrjár svona þotur en Jens Þórðarson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs hjá Icelandair, segir ótímabært að tengja slysin tvö saman.“ Hvenær ætli það sé tímabært? Kínverjar og fleiri hafa lagt sínum flugvélum af sömu tegund og bíða niðurstaðna rannsókna á flugslysunum. Hvers vegna gerir Icelandair það ekki líka?“

Þegar Oddnýju er bent á að um tilviljun gæti verið að ræða segir hún:

„Þetta getur verið tilviljun en er ekki rétt að bíða á meðan að málið er kannað. Það er sammerkt með þessum slysum að það var ekkert að veðri og allar aðstæður flugs góðar en stuttu eftir flugtaka fara flugvélarnar niður.“

Hluti af pólitík

Í athugasemdarkerfinu tjáir Smári McCarthy, þingmaður Pírata sig um málið og hvetur til yfirvegunar. Hann telur að kyrrsetning kínverja sé hluti af pólitík:

 „Það eru nú þegar 350 stykki 737 MAX vélar í notkun í heiminum dagsdaglega, og -8 variantinn er vinsælastur. Það er greinilega eitthvað ekki alveg í lagi, að því er virðist með AoA mælirinn og sjálfvirku nefslækkunina í vissum tilvikum, en það að bara tvö (vitanlega hræðileg) slys hafi átt sér stað, bæði hjá fyrirtækjum sem eiga sér ekki fullkomna öryggissögu, segir mér að það sé líklegra að þetta sé þjálfunaratriði sem ég býst við að Icelandair sé með á hreinu. Betra að æsa sig ekki um of amk fyrr en EASA og FAA leggja sinn dóm á málið. (Þess má líka geta að það gætir ákveðinnar pólitíkur í viðbrögðum Kínverja, sem eru svolítið að reyna að ýta sínu Comac brandi…)“

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Þegar þjóðin hafnaði stjórnmálamanni – Endurtekur sagan sig?

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Þegar þjóðin hafnaði stjórnmálamanni – Endurtekur sagan sig?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að