fbpx
Föstudagur 23.maí 2025
Fókus

Sævar er transstrákur sem hefur lengi glímt við fíkniefnadjöfulinn: „Alla mína ævi hef ég þráð að deyja – Í dag sé ég framtíðina“

Aníta Estíva Harðardóttir
Sunnudaginn 3. mars 2019 14:03

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég fann teikningu fyrir rúmu ári síðan þar sem ég hafði verið að teikna sjálfsmynd þegar ég var í fyrsta bekk. Ég varð alveg hissa þegar ég sá að ég hafði teiknað sjálfan mig með karlkynskynfæri. Myndi venjuleg ung stúlka á þessum aldri bara detta þetta til hugar? Ég veit það ekki en þetta hafði mikla merkingu fyrir mig,“ segir Sævar Torfason sem er tuttugu og tveggja ára gamall trans strákur.

Innan við ár er síðan Sævar kom út úr skápnum sem strákur en það var þó ekki í fyrsta skiptið sem hann opinberaði kyn sitt því árið 2015 fór hann að nefna sig Sævar. Mætti hann þó fordómum og mótlæti sem gerði það að verkum að hann ákvað að skríða aftur til baka í það öryggi sem hann þekkti áður. Sævar hefur gengið í gegnum mikla erfiðleika frá unga aldri og hefur hann meðal annars gengið á milli fósturheimila og meðferðarstofnana í leit að von.

Sævar Torfason / Mynd: Hanna

Er bara venjulegur strákur – fastur í kvenmannslíkama

Blaðakona kom til fundar við Sævar í Gula húsinu við Tjarnargötuna í Reykjavík. Þar mætti henni ungur og glaðlyndur drengur, fullur lífsorku og finna mátti spennuna í andrúmsloftinu fyrir komandi tímum.

„Ég er bara venjulegur strákur, þótt ég sé fastur í kvenmannslíkama. Ég er mjög ofvirkur og á mjög auðvelt með að æsa aðra upp í kringum mig. Ég er fljótfær, hlæ alveg rosalega mikið og er með mikla reynslu að baki. Ég reyni alltaf að taka einn dag í einu og loksins er ég byrjaður að geta verið ég sjálfur án þess að þurfa að óttast hvað öðrum finnst. Með þeirri vinnu sem ég hef unnið hér í tólf spora samtökunum sem og á öðrum stöðum þá hef ég komist að því að það skiptir ekki máli hvað öðrum finnst. Það sem skiptir máli er hvað mér finnst.“

Sævar segir að frá því að hann var ungur drengur þá hafi hann ávallt upplifað sig öðruvísi. Lítil umræða hafi verið um trans-samfélagið yfirhöfuð og að þekkingarleysi gagnvart bæði fíklum og trans-einstaklingum hafi verið mjög mikið.

„Þegar ég var orðin þriggja ára gamall þá byrjaði ég að vilja klæðast strákafötum, þegar ég byrjaði svo í grunnskóla þá fittaði ég hvergi inn og mér fannst óþægilegt að vera í kringum fólk. Þegar ég var í saumum þá gerði ég svolítið sem kom meira að segja sálfræðingnum Óttari Guðmundssyni á óvart. Ég hafði saumað lítinn nettan púða sem ég sagði að væri fyrir dúkkurnar mínar. En ég saumaði púðann í þeim tilgangi að láta hann inn á mig til þess að láta það líta út eins og ég væri með „gæja“ framan á mér. Þetta var í sjötta eða sjöunda bekk. Ég sagði engum frá þessu og fór rosalega leynt með þetta. Þegar púðinn var tilbúinn þá hljóp ég beint inn á bað og lét hann inn á mig, leit í spegilinn og hugsaði með mér að þetta væri eitthvað sem mér líkaði við. Ég vissi ekki hvað þetta var, en ég vissi að þetta væri eitthvað sem hentaði mér.“

Að vera trans stangaðist á við uppeldistrúnna

Sævar ánetjaðist fíkniefnum snemma á lífsleiðinni og hefur hann háð margar glímur við fíkniefnadjöfullinn áður en hann fann sína lausn á síðasta ári.

„Þegar ég fór í meðferð árið 2015 þá kom ég út sem Sævar, í miðri meðferð, og mér leið betur. Þegar ég talaði um mig sem hann í fyrstu skiptin… Það var svo gott, mér fannst ég svo frjáls. Í meðferðinni hitti ég annan trans-einstakling og fór aðeins að hugsa út í þetta. Gæti þetta verið ég? Þarna hafði ég ekki mikið heyrt um trans og vissi ekki um hvað þetta snerist en mér leið samt alltaf eins og ég væri ekki ég. Þegar ég horfði í spegilinn hataði ég að sjá sjálfan mig. Í fyrsta skiptið sem ég kom út sem Sævar tók það alveg rosalega á mig og fleiri. Ég tilkynnti mínum nánustu með bréfsendingu því ég vildi ekki hringja í þau. Vegna alls þess sem gengið hafði á þá spurðu mig margir hvað ég væri að bulla, sem ég skil mjög vel.“

Meðferðina kláraði hann sem Sævar og eftir hana fór hann heim til sín á Akureyri, þar sem hann bjó og var uppalinn.

„Ég kom heim og þetta var ekki alveg samþykkt, þar kemur líka vanþekkingin og allt það inn. Ég var líka búinn að svíkja fólk, búinn að vera í neyslu og það skipti auðvitað miklu máli hvað ég hafði verið að gera af mér þarna á undan. Það var ekki alveg tekið mark á mér. Ég varð að vinna traust fólks inn aftur. Það voru þó nokkrir einstaklingar sem sögðu við mig að þau hefðu vitað þetta allan tímann. Ég man ekki nákvæmlega hvað það var sem kom upp á en líklega var það mikil höfnun frá samfélaginu í heild sinni sem ýtti undir það að ég fór aftur inn. Ég var líklega ekki tilbúinn til þess að taka afleiðingunum eða að standa á mínum rétti að einhverju leyti. Ég var í rúma viku úti sem Sævar og svo fór ég aftur inn í skápinn, ég höndlaði ekki meira. Allar þær upplýsingar sem ég hafði um transferlið voru litlar og þekking mín á þessu var svo lítil. Þó mér hafi alla ævi alltaf eitthvað fundist vera að mér. Ég fór því aftur inn í skápinn og hef í raun bara verið að dandalast síðan þá. Á síðasta ári fór ég aftur í meðferð og með allri þeirri sporavinnu sem ég hef lagt á mig kom ég aftur út sem Sævar og hef ekki snúið við síðan.“

Sævar Torfason / Mynd: Hanna

Að sögn Sævars hefur uppeldi hans, viðmið og gildi fjölskyldunnar einnig flækt stöðu hans töluvert. Fjölskylda hans hefur ávallt verið trúuð og stangast staða hans því á við það sem honum var kennt.

„Ég var í sunnudagaskóla í nokkur ár, var í kirkjukór og safnaði Jesús myndum og svona. Þetta er því svolítið flókið þar sem þetta stangast einhvern vegin á við trúna hjá fólkinu manns. Þau eru að gera allt sem þau geta til þess að reyna að samþykkja mig en það sem ég hef lært á þessum eina ári edrú, og þessum átta til níu mánuðum sem ég hef verið Sævar er að þetta hefur svo mikil áhrif á þau líka. Það sem hefur hjálpað mér er að gefa þeim tíma. Því að einhverju leyti eru þau auðvitað að syrgja litlu systur sína, dóttur sína og frænku sína. En það sem ég vill koma á framfæri er það að þrátt fyrir að ég kalli mig hann og þótt ég fari í kynleiðréttingu þá er ég samt alltaf sami einstaklingurinn. Burt séð frá kyninu. Ég er ekki að fara að umturnast. Ég vil bara fá að vera í mínum rétta líkama og vera kallaður það sem ég vill vera kallaður. Það sem hefur hjálpað mér mikið er að gefa þeim tíma líka.“

Grét af gleði þegar hann kom út á fundi

Þann níunda febrúar síðast liðinn fagnaði Sævar eins árs edrú afmæli. Í gegnum sporavinnu sína komst Sævar að því að allt sitt líf hafi hann verið gramur út í þá staðreynd að hann sé fastur í kvennmannslíkama. Trúnaðarmaður Sævars ræddi við hann um það hvort sá möguleiki væri í stöðunni að hann væri trans einstaklingur.

„Þá var ég búinn að loka á það allt og sagði bara við hana að það gæti ekki verið. Hún bað mig að skoða sjálfan mig alveg inn að beini. Ég hélt áfram minni sporavinnu og ég man ekki alveg hvað það leið langur tími þangað til að ég kom út á fundi. Þá tilkynnti ég mig sem Sævar og það var klappað fyrir mér að vera kominn út, þvílíkur léttir. Trúnaðarmaðurinn minn var á þessum fundi og hún vissi ekki af því að ég væri að fara að koma út þetta kvöld, ég vissi það eiginlega ekki sjálfur en stuðningurinn var gríðarlegur. Það er svo frábært af því að ég hef aldrei passað neins staðar inn en í þessum tólf spora samtökum. Það sem mér finnst skipta svo miklu máli er að það er alls staðar hægt að finna stuðning. Þegar það var klappað fyrir mér á fundinum fór ég að hágráta. Ég er ótrúlega mikil tilfinningavera og þetta var besta upplifun í heimi, bara það að geta farið út úr þessari skel minni. Farið út fyrir þægindarammann og geta verið ég sjálfur. Það táruðust alveg fleiri þarna inni,“ segir Sævar og sá blaðakona glitta í brostár á hvarmi hans við þessa endurminningu.

Sævar Torfason / Mynd: Hanna

Viðbrögð fjölskyldu Sævars voru öðruvísi í annað skiptið sem hann kom út úr skápnum og segir hann systur sína vera hans helsta stuðningsaðila í dag.

„Ég er ævinlega þakklátur fyrir hana, hún er búin að hjálpa mér bæði með þetta og líka bara með minn fíknivanda. Hún hefur kastað lífi sínu til hliðar til þess að skutla mér í meðferðir og sömuleiðis pabbi minn. Í kringum transferlið er þetta auðvitað lengur að síast inn hjá sumum og ég má ekki ýta á þau. Þau þurfa tíma alveg eins og ég, þetta kemur bara smám saman. Systir mín á tvö börn og þetta tekur líka rosalega mikið á þau. Vegna þeirra er ég enn þá kölluð hún þegar ég fer norður. Þau skilja ekki að ég hafi verið stóra frænka þeirra og ávallt ákölluð hinu nafninu, það er ekkert hlaupið í að breyta því og allt tekur tíma. En tveimur dögum fyrir síðastliðið gamlárskvöld afhenti systir mín mér bréf, sem snerti mig djúpt. Í því ávarpaði hún mig sem litlu systur sína en í lok bréfsins skrifaði hún að þegar klukkan myndi slá tólf á miðnætti myndi hún fagna nýju ári með litla bróður sínum. Þetta var svo fallegt þar sem hún og öll okkar fjölskylda er mjög trúuð og fer þetta að vissu leyti gegn hennar trú. Samt er hún tilbúin til þess að viðurkenna mig“

Systir Sævars gekk honum í móðurstað

Segist Sævar aldrei gleyma fyrsta skiptinu sem systir hans bauð honum gleðilegt nýtt ár með orðunum bróðir. Þakkar hann systur sinni, föður og móður fyrir að hafa staðið með sér í gegnum alla þá erfiðleika sem hann hafi látið þau ganga í gegnum.

„Ég og systir mín höfum gegnið í gegnum mjög mikið saman, hún hefur gengið með mér í gegnum hreint helvíti og orðið hafa árekstrar okkar á milli, sumir mjög ljótir en einhvern vegin náum við alltaf að sættast. Þrátt fyrir alla erfiðleika þá er hún alltaf til staðar.“

Þegar Sævar var á táningsaldri fékk móðir hans heilablóðfall og í kjölfar þess flutti hann inn til systur sinnar sem gekk honum í móðurstað.

„Hún er svona að reyna að losna við það í dag,“ segir Sævar og hlær. Hann bætir við: „Þetta móðurhlutverk er svo fast. Börnin hennar eru bara eins og systkini mín og mér finnst þessi tengsl skipta svo miklu máli. Þegar ég var í minni verstu neyslu var ég búinn að reyna að komast inn á geðdeild á Akureyri en þau vildu ekki taka við mér. Systir mín hringdi nokkur símtöl og skutlaði mér svo suður á geðdeildina í Reykjavík. Hún kastaði öllu sínu til hliðar og brunaði með mig hingað suður, þar fékk ég viðeigandi hjálp. Ég er henni og föður mínum svo þakklátur og þó ég búi ekki fyrir norðan með þeim þá er ég alltaf með þeim í anda.“

Finnst óþægilegt að fara í kvennaklefann í sundi

Sævar segir margt í íslensku samfélagi mega breytast gagnvart bæði transfólki sem og fólki sem á við fíkniefnavandamál að stríða. Bæta mætti aðstöðu fyrir transeinstaklinga í sundlaugum sem og á salernum í almennum rýmum.

„Ég elska að fara í sund en það sem heldur mér hvað mest frá því er að af því að ég er enn þá í kvenmanns líkama þá þarf ég að fara í kvennmannsklefa. Ég er hitt kynið, samt í öðruvísi líkama og laðast að kvenfólki. Hvernig myndi kvenfólkið taka í það ef miðaldra karlmaður myndi koma inn í klefann? Þetta veldur mér óþægindum gagnvart öðrum líka. En ég get heldur ekki farið í karlaklefann. Varðandi klósettin þá eru ekki kynjalaus klósett eins og til dæmis í Kringlunni né Smáralind. Systir mín spurði mig hvaða klósett ég færi á og mig langaði til þess að segja karlaklósettið af því að ég er karlmaður en það hefur komið fyrir að ég hef farið á fatlaða klósettið og það finnst mér óþægilegt því þá er ég kannski að taka það frá einstakling sem virkilega þarf á því að halda. Ég lít alls ekki niður á fatlaða einstaklinga, en mér finnst niðrandi fyrir mig sem persónu sem þarf ekki á því klósetti að halda að það sé í raun minn eini valkostur. Nú munu líklega einhverjir spyrja sig af hverju ég fari ekki bara á kvennaklósettið. Það er af því að hugur minn segir mér að það klósett sé ekki fyrir mig. Þar er ég innan um aðra einstaklinga sem ég er ekkert tengdur.“

Sævar Torfason / Mynd: Hanna

Upprunalegt nafn Sævars byrjar einnig á stafnum S og vildi hann halda því þegar hann tók ákvörðun um hvaða nafn hann vildi bera.

„Í grunnskóla var ég oft kallaður Sindri en mig langaði ekki að heita það. Mér fannst það ekki vera ég en ég vildi halda S-inu mínu. Svo allt í einu kom þetta upp. Sævar. Mér þykir rosalega vænt um þetta nafn og ég hef ekki fundið neinn á Íslendingabók né neins staðar sem heitir Sævar Torfason, þannig að hver er Sævar Torfason? Ég er sá eini sanni. Um leið og ég hef fengið nafnið samþykkt hjá þjóðskrá þá langar mig að fá það flúrað á mig. Þetta er svo stór breyting í lífi mínu og öll mín flúr hafa meiningu fyrir mér, þetta verður ein sú stærsta.“

Hefur þráð að deyja alla ævina

Sævar gengur um þessar mundir undir hormónameðferð og kvíðir hann fyrir því að þurfa að fara í blóðprufur og að þurfa að sprauta sig sjálfur.

„Ég var í þannig neyslu að ég notaði áhöld sem eru ekkert fyrir alla en á tímabili var ég komin í sprautuneyslu. Ég á því erfitt með að fara í blóðprufur og ég veit að ég mun þurfa að sprauta mig í vöðva. Ég er svo heppin að ég er með aðila sem er tilbúinn til þess að gera þetta með mér. Ég reyni að forðast allt sem minnir mig á neyslu mína. Ég er líka mjög stressaður fyrir skapgerðarbreytingum sem munu eiga sér stað en með þeirri vinnu sem ég vinn í dag og þeirri sjálfsþekkingu sem ég hef fengið á því að vinna sporin þá minnka áhyggjurnar. Það eru alltaf einhverjar áhyggjur en á meðan ég hlusta á minn æðri mátt, sleppi, trúi, treysti og tek bara einn dag í einu þá minnkar óttinn.“

Í fyrsta skiptið í lífi Sævars sér hann framtíðina fyrir sér og hlakkar til þess að takast á við hana sem hann sjálfur.

„Alla mína ævi hef ég þráð að deyja. Ég hef lent í kynferðisáföllum og fleiri slæmum hlutum. Frá átta til níu ára aldri hef ég óskað þess að deyja. Ég hef reynt að svipta mig lífi yfir tuttugu sinnum og einmitt út af minni neyslu og vegna þess að það hefur komið upp sú staða að ég hef verið tæpur á því að lifa af, þá hef ég lífsviljann í dag. Ég sé framtíðina fyrir mér. Það er eitthvað sem ég hef aldrei geta séð alla mína ævi. Ég er að verða ég, ég er orðinn edrú og er að takast á við mín vandamál. Það er svo gott. Ég á enn þá mjög erfitt með það að fara til Akureyrar því þar var ég gjörsamlega búinn að brenna allar brýr að baki mér. Fara á bak við fólk og svíkja það. En það kemur bara þegar það kemur, þegar ég er tilbúinn. Það sem hefur hjálpað mér í minni edrúmennsku er að geta fyrirgefið sjálfum mér. Það skiptir rosalega miklu máli, við erum bara mennsk og ég geri alveg mistök. Þó ég hafi verið edrú í eitt ár þá geri ég enn þá mistök. Það er enginn fullkominn. Ég hef oft velt því fyrir mér hvað flokkast undir orðinu fullkomin. Hvað er að vera fullkominn? Þetta orð á bara ekki að vera í orðabók.“

Sævar Torfason / Mynd: Hanna

Vistaður í fangaklefa aðeins sextán ára gamall

Neysla Sævars hófst þegar hann var um 15 ára gamall og fór hún nánast strax úr böndunum. Hann vissi ekki hvernig fara átti með áfengi og þegar hann var aðeins 16 ára gamall var hann í fyrsta skipti vistaður í fangaklefa vegna þess hve ofurölvi hann var.

„Þetta er svona fyrsta minning mín af einhverju hugbreytandi efni. Ef þetta byrjar svona, hvernig á maður þá að geta funkerað með einhver önnur efni. Þetta er mín minning af djammi. Ég hef verið sendur á marga staði, dvalið á mörgum fósturheimilum og mörgum meðferðarheimilum fyrir unglinga. Stuttu eftir að hafa verið vistaður í fangaklefa var ég sendur á langtímameðferðarheimili þar sem ég dvaldi í rúmt ár. Þannig að ég fékk einhvern vegin ekki fleiri tækifæri til að „djamma“. En eftir meðferðina flutti ég inn til föður míns og byrjaði smám saman að drekka aftur. Í eitt skipti fékk faðir minn nóg og skil ég hann mjög vel, hann fékk til sín fullan ungling alveg á hausnum. Þetta var á skólakvöldi og ég fór niður í miðbæ alveg hauslaus, hringdi í einhver númer og fór heim til manneskju sem var að nota fíkniefni á sínum tíma. Þarna prófaði ég fíkniefni í fyrsta skiptið. Það var rosalega skrítið og þetta var mér mjög erfitt. Ég prófaði það sem var í boði og mér fannst þetta allt í lagi. Fyrir mér var ekkert eins og himnaríki væri að opnast þar sem vanlíðanin var orðin svo mikil þarna. Ég var að bregðast pabba mínum, hafði verið með mikið vesen undanfarin ár og búin að leggja helvíti á hann. Hann svaf ekki heilu næturnar af því að ég gat ekki staðið í lappirnar. Þessa nótt gerðust ógeðslegir hlutir. Bara ógeðslegir hlutir sem ég er að vinna í á Stígamótum.“

Öfundaði jafnaldra sína en fann enga undankomuleið

Daginn eftir þessa afdrifaríku nótt mætti Sævar í skólann þar sem hann var tekinn á tal. Á honum fundust fíkniefni og var hann í kjölfarið handtekinn og sendur aftur í burtu. Í rúmlega ár notaði hann því enginn efni en fljótlega eftir að hann kom til baka lá leiðin hratt niður á við aftur.

„Þá prófaði ég sem sagt róandi efni. Kannabis. Það var eitthvað sem ég fílaði. Mér tókst þó að hætta en stuttu síðar lést manneskja mér nátengd og fljótlega eftir það byrjaði ég að nota aftur. Mér var bannað að mæta í jarðarförina nema að vera edrú. Þannig að ég var edrú í rúmar tvær vikur til þess að geta hvatt þessa manneskju með sæmd og svo byrjaði ég bara aftur. Ég var úti margar nætur og var bara orðinn gjörsamlega háður. Mér þótti þetta ekki gaman, þetta var ekkert leiðinlegt og ég átti alveg góðar stundir með mínum neyslufélögum en þetta varð bara verra og verra með hverju einasta skipti sem ég datt í það. Mín fyrsta meðferð hjá SÁÁ þar sem ég varð svo fastagestur hjálpaði mér rosalega mikið. Ég hef alveg reynt að vera edrú áður en einhvern vegin aldrei tollað en það var af því að ég fór ekki eftir fyrirmælum og vildi bara gera þetta á minn veg. En gallinn er sá að ég veit ekki neitt þegar kemur að þessu þannig að ég þarf að hlusta á einhvern annan og fara eftir því.“

Þegar Sævar náði sínum botni man hann eftir því að hafa staðið og horft út um stofu gluggann heima hjá sér þar sem hann leigði íbúð nálægt verkmenntaskólanum á Akureyri. Þar sá hann krakka á svipuðum aldri og hann sjálfur ganga í skólann til þess að mennta sig.

„Ég horfði á þau og ég hugsaði hvað ég öfundaði þau. Ég vildi að ég gæti verið þau en þarna var ég í mínu greni, búinn að kveikja í heima hjá mér. Ógeðsleg lykt inni hjá mér og þarna var ég bara í mínum eigin skít. Af hverju gat ég ekki verið í þeirra sporum? En ég er í þeim í dag og ég myndi ekki vilja breyta neinu fyrir einn skammt af því að síðustu skiptin sem ég notaði núna á síðasta ári voru hreint helvíti. Ég man ekki eftir fjórum vikum. Þetta var stutt fall en þetta var djúpt. Það var mikið af fólki heima hjá mér sem ég vissi oft ekkert hverjir þeir voru, bara vinafólk vina minna og það var alltaf stanslaust partý. Ég vissi ekki hvað fólk var að gera þarna og það sem var svo ljótt við þetta er að þau voru að nota mig og ég var að nota þau. Þannig að vítahringurinn var orðinn svo stór. Eftir að ég varð edrú og sé hvernig neysluheimurinn er þá er ekkert sem dregur mig þangað aftur. Það þykir mér svo gott vegna þess að í neyslunni er ég búinn að gera ógeðslega hluti, segja ógeðslega hluti og koma ógeðslega illa fram. En í dag get ég fengið tækifæri til þess að laga það. Laga það sem hægt er að laga. Sumt er ekki hægt að laga en ég fæ að minnsta kosti tækifæri til þess að reyna. Í dag er ég bara að reyna að vera besta útgáfan af sjálfum mér.“

Skammast sín stundum fyrir að vera Íslendingur

Sævar segist hafa upplifað fordóma frá samfélaginu bæði gagnvart því að vera fíkill sem og að vera trans einstaklingur.

„Ég skammast mín ekki fyrir að vera fíkill, ég skammast mín ekki fyrir að vera trans. En ég skammast mín stundum fyrir það að vera Íslendingur. Það er ljótt að segja það. Ég elska landið mitt en stundum er ég bara kominn með ógeð á því hvernig sumir Íslendingar koma fram við aðra. Þannig að já ég er öryrki, já ég er trans, já ég er fíkill og já ég á ekki bót fyrir borunni á mér í lok mánaðarins. En ég er samt þakklátur fyrir það að vera á lífi. Það er svo margt sem mætti bæta í samfélaginu okkar. Eins og til dæmis Vogur, þetta er flott og gott úrræði en það er svo mikil vöntum á plássi. Biðlistarnir eru rosalega langir. Hvað heldur þú að margir deyi á þessum biðlista? Út af of stórum skammti, fyrir eigin hendi eða fyrir slysni? Þetta er ekki boðlegt, það ætti að vera löngu búið að stækka þennan stað. Sex hundruð manns á biðlista, hvað heldur þú að margir haldi þetta út? Það er bara tímaspursmál hvenær allt fer til fjandans. Það þarf að búa til fleiri meðferðarheimili og fleiri úrræði. Þetta er svo sorglegt því að það er til lausn. Ég hef setið með útigangsfólkinu okkar á Austurvelli og séð hvernig fólk horfir á þau hornauga vegna þess að þau hafa í engin hús að vernda og stríða við vandamál gagnvart áfengi og fíkniefnum. Það gerir þau ekki að verri manneskjum og við verðum að vera góð við hvort annað.“

Sævar Torfason / Mynd: Hanna

Vildi Sævar óska þess að tólf spora kerfið væri kennt í grunnskólum og framhaldsskólum landsins og telur hann alla hafa gott af því að fara í gegnum þau.

„Það halda svo margir að fíklar séu algjörir hálfvitar og fífl, við erum það bara alls ekki. Mér finnst að það ætti að kenna tólf sporin í öllum skólum landsins þetta er svo manngefandi. Sama þó manneskjur séu ekki fíklar eða alkóhólistar þá geta þær alveg verið með vanmátt gagnvart einhverju. Allir hafa bresti sama hvort þeir hafi þann stimpil að vera alkóhólistar, fíklar eða venjulegar manneskjur. Hvað er svo sem að vera venjuleg manneskja? Að hafa farið í gegnum tólf sporin hefur kennt mér að horfa öðruvísi á aðstæður, vera með opinn huga og í dag sé ég hvenær ég er að gera rangt, hvenær ég er að koma illa fram og get brugðist við því. Það er bara svo gaman og gott að geta leyft sér að finna sig. Ég er svo þakklátur fyrir lífið. Þakklátur fyrir hvern einasta dag sem ég fæ,“ segir Sævar og horfir dreyminn fram í framtíðina.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Klámstjarna á sjúkrahúsi eftir að hafa sofið hjá 583 karlmönnum

Klámstjarna á sjúkrahúsi eftir að hafa sofið hjá 583 karlmönnum
Fókus
Í gær

Æskuvinkona Lindu Pé sagðist ekki þola velgengni hennar – „Þetta særði mig og þá bara sleppti ég og skapaði rými fyrir aðra vini“

Æskuvinkona Lindu Pé sagðist ekki þola velgengni hennar – „Þetta særði mig og þá bara sleppti ég og skapaði rými fyrir aðra vini“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Bjarnheiður svarar Jónasi Sen fullum hálsi og segir hann „baðaðan í snobbi þess, sem telur sig hærra settan“

Bjarnheiður svarar Jónasi Sen fullum hálsi og segir hann „baðaðan í snobbi þess, sem telur sig hærra settan“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Elítan hefur tekið ákvörðun um ungu og „stjórnsömu“ kærustuna

Elítan hefur tekið ákvörðun um ungu og „stjórnsömu“ kærustuna