fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024

María er einstæð móðir – Segir fæðingarorlofið til skammar: „Það sér það hver heilvita maður að dæmið gengur aldrei upp“

Ritstjórn Bleikt
Fimmtudaginn 22. nóvember 2018 13:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

María Björgvinsdóttir er einstæð tveggja drengja móðir sem er um þessar mundir enn í fæðingarorlofi með yngri son sinn sem er sex mánaða gamall. Sem einstæð móðir fær María einungis sex mánuði í fæðingarorlof með syni sínum og er því orlofi hennar að ljúka. Sonur hennar er enn á brjósti, kemst ekki að hjá dagforeldri fyrr en haustið 2019 og faðir barnsins býr ekki í sama bæjarfélagi. María er því föst í virkilega slæmri stöðu. Bleikt gefur Maríu orðið:

Fæðingarorlof er til háborinnar skammar hér á landi

Ég get ekki orða bundist yfir því hvernig reglum um fæðingarorlof er háttað hér á landi og þá sér í lagi gagnvart einstæðum mæðrum.

Nú er ég einstæð móðir með tólf ára og sex mánaða drengi. Fæðingarorlofi er þannig háttað að móðir á rétt á þremur mánuðum, faðir á þremur og síðan eru þrír mánuðir sameiginlegir. Í mínu tilfelli tek ég sex mánuði þar sem ég er einstæð og faðirinn þrjá mánuði hvort sem hann nýtir þá alla eða ekki. Ég get ekki nýtt þessa þrjá mánuði kjósi hann að nýta þá ekki.

Ef ég hefði farið í tæknifrjóvgun þá ætti ég rétt á níu mánuðum í fæðingarorlof með barninu, einnig ef ég vissi ekki hver væri faðir barnsins. Ég tel eðlilegt að réttur minn sé sá sami og þeirra sem fara í tæknifrjóvgun, þar sem barnið er háð mér fyrsta árið meðan það er á brjósti og þar sem faðirinn býr ekki í sama bæjarfélagi. Hvers vegna þarf barn einstæðrar móður að líða fyrir það að foreldrar séu ekki í sambúð? Þ.e. getur ekki verið eins lengi heima.

Hvað er best fyrir börnin?

Ég ætla aðeins að fara betur yfir málið. Sameiginlega eru þetta níu mánuðir sem barnið fær í orlofi með foreldri. Hvort sem um ræðir fólk í sambúð eða ekki. Við búum ekki í sama bæjarfélagi. Ég sendi ekki sex mánaða gamlan son minn með rútu út á land í þrjá mánuði svo að ég komist út á vinnumarkað, sérstaklega í ljósi þess að hann er enn á brjósti og varla farinn að fá fasta fæðu.

Er fæðingarorlof ekki til þess að foreldrar geti hugsað um börnin sín? Ætti ekki að hafa hag barna í fyrirrúmi þegar reglur um fæðingarorlof eru settar? Hvað er best fyrir börnin?

Það er að minnsta kosti ekki að móðir sendi sex mánaða gamalt barn út á land í þrjá mánuði, hætti með það á brjósti svo hún komist aftur á vinnumarkað. Það stendur líka til boða að setja barnið til dagforeldri sex mánaða, sem mér persónulega finnst alltof snemmt. Þau eru varla farin að borða, varla farin að sitja og hreinlega alltof lítil til þess að fara frá foreldri að mínu mati. Einnig er það hægara sagt en gert að fá pláss hjá dagforeldri. Ég til að mynda er komin með pláss haustið 2019, en það er spurning hvort að drengurinn fari inn á leikskóla þá.

Svo er það fjárhæðin sem kostar að setja barn til dagforeldris, það er tæplega á færi einstæðrar móður. Niðurgreiðsla á því plássi tekur ekki gildi fyrr en barnið verður tíu mánaða. Einstæða móðirin þarf því að greiða lágmarksgjaldið sem er rúmlega hundrað þúsund krónur á mánuði án niðurgreiðslu, leiguhúsnæði og aðra reikninga. Hvernig er það gerlegt?

Dæmið gengur ekki upp

Flestir foreldrar/mæður sem ég þekki til, lengja fæðingarorlofið sitt með því að skipta því niður á fleiri mánuði. Skipta til dæmis sex mánuðum niður á tíu til tólf mánuði, eða hvernig sem hentar og fá því lengri tíma með barninu, en upphæð á mánuði töluvert minni þegar skipt er á fleiri mánuði. En hvernig í ANDS…. afsakið orðbragðið á einstæð móðir að skipta niður fjárhæð sem nær ekki 300.000 kr. á mánuði, á fleiri en sex mánuði? Fjárhæðin sem ég hefði til ráðstöfunar næði ekki 150.000 kr. ef ég dreifði henni á tólf mánuði. Það sér það hver heilvita maður að dæmið gengur aldrei upp!

Síðast en ekki síst, þá eru reglurnar um það hvernig fjárhæðin reiknast sem foreldrar fá greidda í fæðingarorlofi fáránlegar. Maður þarf að hafa unnið í sex mánuði á Íslandi fyrir settan dag til þess að eiga rétt á fæðingarorlofi. Allt gott og gilt með það. Síðan eru skoðaðar tekjur tólf mánuði fyrir þessa 6 mánuði og fundið út meðaltal. Við fáum greitt 80% af þeirri fjárhæð á mánuði. Ég var til dæmis með 20.000 kr. hærri laun (hækkaður dagvinnutaxti, ekki auka yfirvinna) allt árið að settum fæðingardegi, en greiðsla miðast við launin mín þar sem ég var lægri og þar af leiðandi fæ ég mun lægri greiðslu frá fæðingarorlofssjóði heldur en launin mín eru.

Hvað varð um það að lengja fæðingarorlofið??? Sem ÍTREKAÐ hefur verið lofað að gera, en ekki hefur verið staðið við. Lög og reglur um fæðingarorlof eru til skammar hér á landi, nær væri að líta til nágrannaþjóða og taka þeirra vinnubrögð til fyrirmyndar eins og svo oft er gert. Ég hefði haldið að fæðingarorlof ætti einungis að snúast um að njóta með barni en ekki að maður þurfi að hafa fjárhagsáhyggjur eða áhyggjur um hvað muni verða að fæðingarorlofi loknu.
Stjórnvöld hvernig væri að fara girða sig í brók!!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Hákon fékk mínútur í gríðarlega mikilvægum sigri

Hákon fékk mínútur í gríðarlega mikilvægum sigri
433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

England: Frábær fyrri hálfleikur tryggði Arsenal þrjú stig í stórleiknum

England: Frábær fyrri hálfleikur tryggði Arsenal þrjú stig í stórleiknum
Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Málefni Salarins í Kópavogi: Saka bæjarstjóra um takmarkaðan skilning og áhuga á lýðræði

Málefni Salarins í Kópavogi: Saka bæjarstjóra um takmarkaðan skilning og áhuga á lýðræði
Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Ögmundur segir Kveiks-málið meira en starfsmannamál – „Gróf ærumeiðing um góða og faglega fréttakonu“

Ögmundur segir Kveiks-málið meira en starfsmannamál – „Gróf ærumeiðing um góða og faglega fréttakonu“