Um síðustu helgi fóru næturvagnar Strætó í sínar fyrstu ferðir en það er nýjung að strætó sinni næturakstri um helgar. Í gegnum tíðina hefur strætó og almenningsvagnakerfi höfuðborgarinnar ósjaldan verið yrkisefni reykvískra skálda og viðfangsefni listamanna. Eitt dæmi um hvernig næturstrætó hefur verið nýttur á frumlegan hátt í listsköpun er í lagi hinnar goðsagnakenndu sörfhljómsveitar Brim, af plötunni Hafmeyjur og hanastél sem kom út árið 1996.
Undir afslöppuðu, blúsuðu sólstrandarrokkinu má heyra ógreinilegt suð sem einstaklega athyglisskörp undirmeðvitund gæti tengt við strætóferðir sínar. „Í hægri hátalaranum er upptaka úr ferð í næturvagni Strætó frá Lækjartorgi og upp í Árbæ. Ferðin tók um klukkutíma þannig að ég hraðaði um tuttugu sinnum á upptökunni, útkoman er því hátíðnisuð sem er nánast ógreinilegt,“ segir tónlistarmaðurinn Curver (sem ávallt kallaði sig Bibbi barti, þegar hann spilaði á gítar með Brimi). Með þessari hljóðtilraun Curvers tryggðu næturvagnar tíunda áratugarins sér öruggt (en ógreinilegt) sæti í menningarsögunni.