fbpx
Mánudagur 29.apríl 2024
Eyjan

Lífskjarabylting á lítilli eyju – og smá söknuður eftir gömlum tíma

Egill Helgason
Miðvikudaginn 4. júlí 2018 16:15

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mér finnst merkilegt að heyra sögur frá gömlum tíma á eyjunni sem ég dvel á og nefnist Folegandros. Kannski ekki svo gömlum tíma heldur, það má segja að nútíminn hafi ekki hafið innreið sína hérna fyrr en upp úr 1980. Íbúar lýsa fyrir mér tíma þegar var ekkert vatn nema í brunnum, enginn sími nema lína þar sem var fjöldi manns að reyna að komast að í einu, sama og engir vegir heldur bara slóðar, asnar helstu flutningatækin.

Sögurnar segir mér fólk sem er á mínum aldri eða ívið eldra. Og maður horfir á gamla fólkið og hugsar hvað það hefur lifað miklar breytingar.

Vinur minn einn býr á eyjunni, Fotis að nafni, en hann er fæddur í Alexandríu í Egyptalandi. Þangað flutti fólk frá Folegandros í lok nítjándu aldar og upphafi þeirrar tuttugustu. Alexandría var þá að talsverðu leyti grísk borg, eins og hún hafði verið frá því hún var stofnuð af Alexander mikla. Fólkið sem flutti til borgarinnar efnaðist og fór að koma í heimsóknir á gömlu eyjuna. Þá sáu eyjaskeggjar peninga í fyrsta skipti og það myndaðist grundvöllur fyrir smá þjónustu við ferðamenn.

Það var samt ekki mikið. Fotis vinur minn kom fyrst til eyjarinnar þegar hann var barn árið 1954. Þá var siglt í þrjátíu tíma frá hafnarborginni Pireaus. Hann segir að skipið hafi verið byggt fyrir Vilhjálm II Þýskalandskeisara en var afhent Grikkjum í skaðabætur eftir fyrri heimsstyrjöldina. (Það er viðkvæmt mál að Grikkir fengu engar bætur eftir þá síðari.) Þetta hafði verið glæsilegt skip og var afar traust, en þarna ægði saman á dekkinu mönnum og skepnum – fólk ferðaðist milli eyjanna með búpening í þá tíð. Lyktin var ekki góð. Svo var skotið út báti og róið með farþegana í land – og skepnurnar líka.

Maður getur gert sér í hugarlund fátæktina hérna þegar maður horfir á endalausa steinveggi sem hafa verið hlaðnir í aldanna rás. Það er talið líklegt að hér hafi verð menn frá því um 3000 f. Kr, en þeir eiga sér enga sögu sem hefur verið skráð. Það voru engin frægðarverk unni hér eða reistar merkilegar bygginar – fólkið lifði mann fram af manni og enginn veit hvað gerðist. Í helli sem er hérna í sjávarbjargi er að finna áletrarnir sem hafa verið ristar í vegginn – þær elstu eru frá því fyrir Krists burð. Í hellinn leitaði fólk undan sífelldum árásum sjóræningja – sem stundum tæmdu eyjarnar af fólki og seldu alla í ánauð.

Veggirnir voru hlaðnir til að búa til smá undirlendi fyrir ræktun. Þeir standa, en nú er ræktarlandið að mestu yfirgefið – það eru aðrir atvinnuvegir sem hafa tekið við en eilíft strit við að hafa nógan jarðveg til að rækta og vatn til að vökva. Á sumrin eru nú þrjár til fjórar daglegar skipakomur á eyjuna.

Líf fólksins hefur líka breyst til muna. Ferðamenn sem á eyjuna koma eru taldir í þúsundum. Það hafa sprottið upp hótel, veitingahús og búðir, eyjan hefur tekið talsverðum breytingum frá því ég fór að koma hingað fyrir tæpum tuttugu árum. Þetta eru gríðarleg umskipti, margir hafa efnast vel, þeir hafa allt til alls, það er meira að segja búið að setja upp tannlæknastól, tannlæknir kemur annað veifið frá Santorini og gerir við tennur. Margir kjósa að búa í Aþenu á veturna en eru úti í eyju á sumrin. Kannski fer það í vetrarfrí til Thailands eða Kúbu. Forfeður þeirra og formæður komust flest aldrei burt frá eyjunni, sáu nálægar eyjar á hverjum degi – en þær voru framandi heimur, þótt þær væru ekki nema í fimmtíu til hundrað kílómetra fjarlægð.

En sögurnar sem gamla fólkið hefur að segja er endurómur frá gömlum tíma sem nær langt langt aftur. Af lífsháttum sem breyttust ekki þótt aldirnar liðu. Mig þyrstir í að heyra þessar sögur. Um róttækt fólk sem var sent hingað í útlegð á tíma herforingjastjórna, var sett í að leggja götur – það má ennþá sá fangamörk útlaganna hér og þar. Um heimsstyrjöldina þegar voru hér fáeinir ítalskir hermenn – og uppgjörið við þá sem unnu með hernámsliðinu af stríðinu loknu. Ég veit að einn kvislingurinn var hogginn í hausinn úti á götu um hábjartan dag.

Svo vill maður helst stöðva tímann. Af hverju kom ég ekki hingað fyrr meðan þetta var ennþá frumstætt og fátækt samfélag bænda- og fiskimanna og lífið byggði mestanpart á sjálfsþurftabúskap? Einfaldri kjötframleiðslu, jógúrt og ostum, smá víni og raki. Það hefði verið sjón að sjá. Þrátt fyrir hörð lífskjör var talsvert langlífi meðal eyjaskeggja.

Og er ekki komið nóg af hótelum? Þarf þessi líka að opna bílaleigu eða skyndibitastað? Meira að segja gamla landbúnaðarþorpið Ano Meria er að breytast í stað með fáguðum gististöðum og veitingahúsum – og ríkt fólk frá Ítalíu og Frakklandi er að byggja þar hús, þau eru úr hlöðnum steini, og afar smekkleg, en samt. Þegar við komum hingað fyrst var okkur sagt að þetta minnti enn á þorp frá því um miðja tuttugustu öldina, með svartklæddum eldgömlum konum og körlum á asnabaki.

En þessu ræður maður víst ekki. Maður hefur ekkert um þetta að segja. Og maður getur víst ekki farið fram á það að fólk lifi áfram í fátækt, fari á mis við velmegun, bara af því manni finnst það skemmtilegt og myndrænt.

Ég ætla líka að taka fram að vinkona mín, um það bil áratug yngri en ég, sem kom hingað á eyjuna á sumrin sem barn talar um að þetta hafi verið mjög sérstakt – en sér hafi verið farið að leiðast eftir svona tíu daga á eyjunni. Það var afar lítið við að vera, mitt í öllum upprunaleikanum.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Jón Sigurður skrifar: Eiga ekki saman Jón og Júróvisjón

Jón Sigurður skrifar: Eiga ekki saman Jón og Júróvisjón
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins til liðs við kosningateymi Katrínar

Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins til liðs við kosningateymi Katrínar
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Jóhann Páll Jóhannsson á Alþingi: Hákarlar margfalda höfuðstól smálána – veiðileyfi í boði ríkisstjórnarinnar

Jóhann Páll Jóhannsson á Alþingi: Hákarlar margfalda höfuðstól smálána – veiðileyfi í boði ríkisstjórnarinnar
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Enginn ágreiningur milli Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks um opinbera þjónustu og skatta

Ólafur Þ. Harðarson: Enginn ágreiningur milli Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks um opinbera þjónustu og skatta