fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fréttir

Svartur listi IKEA ólöglegur

Einstaklingur í ævilöngu banni kvartaði til Persónuverndar í kjölfar umfjöllunar DV

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 31. ágúst 2016 16:10

Einstaklingur í ævilöngu banni kvartaði til Persónuverndar í kjölfar umfjöllunar DV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Persónuvernd hefur komist að þeirri niðurstöðu að vinnsla IKEA á persónuupplýsingum um viðskiptavin sem sakaður var um þjófnað í búðinni samrýmist ekki lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Maðurinn var einn þeirra 45 Íslendinga sem settir hafa verið í ævilangt bann fyrir meint brot í versluninni og DV fjallaði um í janúar síðastliðnum.

Stöðvaður fyrir að borga ekki

Maðurinn kvartaði til Persónuverndar í byrjun febrúar síðastliðinn. Kvörtun hans varðaði skráningu persónuupplýsinga um hann á lista IKEA yfir einstaklinga sem eru í viðskipta- og komubanni í verslun fyrirtækisins og vegna ummæla fjármálastjóra IKEA í DV.

Maðurinn hafði fengið upplýsingar frá framkvæmdastjóra IKEA um að hann væri á þessum svarta lista vegna atviks sem átti sér stað í versluninni í janúar 2010. Atvikið var að sögn mannsins á þá leið að hann hafi ásamt sambýliskonu sinni verið að skanna vörur í sjálfsafgreiðslukassa IKEA þegar vinafólk hafi gefið sig á tal við þau. Að samtalinu loknu hafi maðurinn tekið poka með vörum og gengið frá kassanum, án þess að greiða fyrir þær. Var hann stöðvaður af öryggisverði en boðist til að greiða fyrir vörurnar þegar hann áttaði sig á mistökunum. Lögregla var hins vegar kölluð til, málið kært en ekki leitt til ákæru. Maðurinn heldur fram sakleysi sínu í kvörtuninni til Persónuverndar og segir myndbandsupptökur verslunarinnar staðfesta frásögn hans.

Maðurinn bendir á að ekkert eftirlit sé með þeim trúnaðarupplýsingum sem skráðar eru á lista IKEA og hinir skráðu hafi enga möguleika á að vita hvernig þessi listi sé geymdur, hverjir sjái hann og hvaða upplýsingar séu á honum.


Sjá einnig:

45 Íslendingar í ævilöngu banni frá IKEA
Alsjáandi auga IKEA skannar númeraplötur


Taldi ummæli afhjúpa sig

Þá hafi fjármálastjóri í viðtali við DV tjáð sig um mál mannsins og sambýliskonunnar þegar það var enn til meðferðar hjá lögreglu. Fram kom í viðtalinu hvaða dag málið hafi komið upp og upplýst að konan væri reglulega í fjölmiðlum. Konan var hins vegar ekki kærð í málinu. Vildi maðurinn meina að fjármálastjórinn hefði þannig veitt persónuupplýsingar sem gætu leitt til þess að þeir sem voru í verslun IKEA þennan dag þekktu hann og sambýliskonu hans. Maðurinn sendi í kjölfar umfjöllunar DV tölvupóst á framkvæmdastjóra IKEA þar sem hann gerði athugasemd við fréttina og ummæli fjármálastjórans. Þá hafi hann spurt hvort hann væri á listanum og fengið það staðfest og upplýsti framkvæmdastjórinn að öryggisverðir myndu vísa kvartanda út ef hann kæmi inn í verslunina.

Skemmst er frá því að segja að Persónuvernd hafnar því í úrskurði sínum að þær upplýsingar sem fjármálastjórinn veitti um ónafngreinda einstaklinga umrætt sinn væru persónugreinanlegar.

DV fjallaði á sínum tíma um umfangsmikil svik og þjófnað einstaklinga í IKEA. Eitt par fékk 30 daga skilorðsbundinn dóm vegna málsins. Myndin tengist efni fréttar ekki.
Stóra IKEA málið DV fjallaði á sínum tíma um umfangsmikil svik og þjófnað einstaklinga í IKEA. Eitt par fékk 30 daga skilorðsbundinn dóm vegna málsins. Myndin tengist efni fréttar ekki.

IKEA safnar upplýsingum af Facebook

Persónuvernd bauð IKEA að koma á framfæri skýringum vegna kvörtunar mannsins. Þar staðfestir IKEA að öryggisdeild fyrirtækisins haldi lista yfir einstaklinga „sem séu ekki velkomnir í verslunina vegna þess að þeir hafi verið staðnir að þjófnaði, hafi gert tilraun til þjófnaðar, framið skemmdarverk í versluninni, haft þar í frammi ógnandi hegðun eða farið fram með ofbeldi. Þá séu dæmi um að öryggisdeildin hafi fært á listann einstaklinga sem hún telji ástæðu til að fylgjast náið með ef þeir koma í verslunina. Á listanum sé nafn viðkomandi ásamt kennitölu og ástæðu þess að viðkomandi er á listanum. Þá fylgi slíkri skráningu mynd, sé hún til á Facebook-síðu viðkomandi einstaklings.“

Til að verja IKEA, vörur og gesti

Fyrirtækið vill meina að það hafi málefnalegar ástæður til að safna þessum upplýsingum saman. Meðal annars til að sporna gegn þjófnaði úr versluninni, koma í veg fyrir skemmdarverk og reyna að fyrirbyggja að gestir verði fyrir ofbeldi. Um væri að ræða stærstu smásöluverslun landsins og virkt eftirlit hefði fælingarmátt gagnvart aðilum sem kynnu að hyggja á ofbeldisglæpi. Um brýna hagsmuni verslunarinnar og viðskiptavina væri því að ræða.
Upplýsingum væri eingöngu safnað í þessum tilgangi. Upplýsingarnar einskorðist við það sem nægilegt sé til þess að lögmætu markmiði með söfnun upplýsinganna verði náð.
„Einungis séu áreiðanlegar upplýsingar á listanum en skráning á hann sæti reglulegri endurskoðun öryggisdeildar fyrirtækisins. Dæmi séu um að nöfn einstaklinga hafi verið afmáð þegar ekki hafi lengur verið talin þörf á að vera á verði gagnvart þeim,“ er haft eftir lögmannsstofu fyrir hönd IKEA.

Þá upplýsir IKEA að einungis starfsmenn öryggisdeildar fyrirtækisins hafi aðgang að listanum.

„Öll meðferð öryggisdeildarinnar á upplýsingunum sé vönduð og fyllsta öryggis gætt til þess að þær verði ekki aðgengilegar óviðkomandi aðilum.“

Sömuleiðis sé þeim sem eru á listanum tilkynnt um það, verði starfsmenn deildarinnar varir við þá í versluninni. Á listanum sé aðeins vitneskja IKEA um hegðun hinna skráðu í versluninni. Þá leiði það af að eðli málsins að IKEA beri ekki að tilkynna hinum skráðu um skráninguna hafi öryggisdeildin af sérstöku tilefni skráð viðkomandi á listann til þess að geta fylgst sérstaklega með þeim í versluninni umfram aðra gesti. IKEA hefur ekki sett sérstakar reglur um hvernig fara skuli með beiðni um leiðréttingu eða eyðingu af listanum.

Íþyngjandi og mannorð í hættu

Skýringar IKEA voru bornar undir kvartanda. Í svarbréfi segir hann að hann hafi ávallt neitað því að hafa framið þjófnaðarbrot og að hvorki lögregla né IKEA hafi sannað að hann hafi brotið lög af ásetningi. Það sé íþyngjandi fyrir þá sem skráðir eru á umræddan lista að fá ekki tilkynningu um það við skráningu heldur eingöngu þegar þeir mæti í verslunina og sé vísað út.

„Kvartandi gerir jafnframt athugasemd við að ekkert ytra eftirlit sé með starfsháttum öryggisdeildar IKEA, einkum í ljósi þess að fyrirtækið geri ekki greinarmun á mistökum og þjófnaði af ásetningi. Þá geti skráning á listann fyrir lífstíð ekki talist eðlileg þar sem nokkur fjöldi starfsmanna IKEA hafi aðgang að listanum og ljóst sé að æra og mannorð einstaklinga sem skráðir séu á hann sé í hættu. Jafnframt hafi þeir einstaklingar, sem brjóti af sér af ásetningi í versluninni, engan möguleika á betrun.“

Auk þess að vera með svartan lista yfir einstaklinga í lífstíðarbanni fylgist þessi myndavél á þessum staur við aðkomuna að IKEA með númeraplötum. DV upplýsti um það eftirlit í síðasta helgarblaði.
Skanna númeraplötur Auk þess að vera með svartan lista yfir einstaklinga í lífstíðarbanni fylgist þessi myndavél á þessum staur við aðkomuna að IKEA með númeraplötum. DV upplýsti um það eftirlit í síðasta helgarblaði.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

IKEA gert að eyða upplýsingum

Sem fyrr segir telur Persónuvernd að sá liður kvörtunarinnar er snýr að meintum persónugreinanlegum upplýsingum í ummælum fjármálastjóra í fjölmiðlum ekki falla undir gildissvið persónuverndarlaga. Hins vegar sé ljóst að vinnsla IKEA á persónuupplýsingum um manninn gerir það.

Persónuvernd telur að IKEA hafi lögmæta hagsmuni af því að halda uppi almennu eftirliti í verslun sinni í þágu öryggis og eignavörslu. Slíkt eftirlit verði þó að samrýmast öðrum ákvörðum persónuverndarlaga.

Persónuvernd kemst að þeirri niðurstöðu að IKEA hafi ekki heimild til að skrá upplýsingar um kvartanda á lista yfir einstaklinga sem ekki eru velkomnir í verslun fyrirtækisins.

„Ber IKEA því að eyða öllum persónuupplýsingum um kvartanda af listanum.“

Hefur verslunin til 20. september næstkomandi til að senda Persónuvernd staðfestingu á því að viðkomandi aðili hafi verið afmáður af þessum svarta lista.

En líkt og fram kom í umfjöllun DV í janúar síðastliðnum eru tugir Íslendinga á þessum bannlista IKEA. Úrskurður Persónuverndar gæti því reynst fordæmisgefandi fyrir þá.

Þessu tengt þá upplýsti DV í síðasta helgarblaði að rafrænt eftirlit IKEA með hinum bannfærðu gengur skrefinu lengra. IKEA hefur nefnilega um nokkurt skeið verið með innrauða myndavél og kastara sem skannar númeraplötur allra vegfarenda við aðkomuna að versluninni. Ef númeraplata tengd einstaklingum á bannlista er auðkennd af myndavélinni þá sendir búnaðurinn boð um það til öryggisdeildar IKEA. Forstjóri Persónuverndar sagði í samtali við DV vegna málsins að tilefni kunni að vera til að skoða málið nánar.

Úrskurður Persónuverndar í heild sinni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Lögregla kölluð út vegna tjaldbúða í miðborginni

Lögregla kölluð út vegna tjaldbúða í miðborginni
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Fordæmalaus staða gæti komið upp á gosstöðvunum á Reykjanesskaga – „Þetta er fyrsta skiptið sem við sjáum svona“

Fordæmalaus staða gæti komið upp á gosstöðvunum á Reykjanesskaga – „Þetta er fyrsta skiptið sem við sjáum svona“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Stjórnarflokkarnir eru að koma sér upp þægilegum merkimiðum þegar styttist í kosningar

Ólafur Þ. Harðarson: Stjórnarflokkarnir eru að koma sér upp þægilegum merkimiðum þegar styttist í kosningar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Næsta skref – byltingakenndar breytingar

Næsta skref – byltingakenndar breytingar