fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Fréttir

45 Íslendingar í ævilöngu banni frá IKEA

„Við erum örugglega rænd á hverjum degi“ – Óútskýrð rýrnun allt að tvær milljónir á mánuði

Björn Þorfinnsson
Þriðjudaginn 26. janúar 2016 09:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fjörtíu og fimm Íslendingar eru í ævilöngu banni frá verslun IKEA hérlendis en stefna stærstu verslunar landsins varðandi búðarhnupl er skýr. Þjófar eru einfaldlega ekki velkomnir. Árið 2015 var metár varðandi búðarhnupl ef mið er tekið af tilkynningum til lögreglu en Samtök verslunar og þjónustu hafa gagnrýnt þá staðreynd að flest mál eru felld niður og erfitt er fyrir verslanir að fá bætur vegna tjónsins sem þær verða fyrir.

„Örugglega rænd á hverjum degi“

Verslun IKEA í Kauptúni í Garðabæ er stærsta verslun landsins. Á virkum degi koma um 3.000 til 4.000 manns í verslunina og á laugardegi eða sunnudegi má búast við um 6.000 – 9.000 manns í verslunina. Met var sett síðastliðin jól þegar 10 þúsund manns lögðu leið sína í verslunina á stökum degi, þrjú prósent íslensku þjóðarinnar. Það þarf því ekki að koma á óvart að mál tengt búðarhnupli komi reglulega upp í versluninni. „Við erum örugglega rænd á hverjum degi,“ segir Stefán Árnason, fjármálastjóri fyrirtækisins, sem einnig er yfir tíu manna öryggisdeild IKEA á Íslandi.

Finna tómar umbúðir

Í nóvember síðastliðnum varð blaðamaður vitni að því þegar öryggisverðir í IKEA stöðvuðu ungt par með barn vegna gruns um þjófnað. Parið hafði samviskusamlega skannað talsvert af vörum inn í sjálfsafgreiðslukassa en ekki tekið upp kort til þess að greiða vöruna. Þau gengu því næst hröðum skrefum að útgöngudyrunum þar sem árvökull starfsmaður greip inn í. Uppákoman var öll hin vandræðalegasta og afsökun parsins var sú að þau hefðu hreinlega gleymt að renna kortinu í gegn.

Stefán kannast við málið en að hans sögn eru öll mál kærð til lögreglu. Tíðni búðarhnupls, sem kemst upp, hefur aukist hjá fyrirtækinu undanfarið. „Við vitum svo sem ekki hvort við séum að verða betri varðandi eftirlit eða þá að búðarhnupl sé að aukast,“ segir Stefán. Hann bendir á að reglulega finni starfsmenn tómar umbúðir í krókum og kimum búðarinnar, sem er vísbending um að þjófnaður hafi átt sér stað. Óútskýrð rýrnun IKEA er um 1–2 milljónir króna á mánuði.

IKEA hefur náð verulegum árangri í baráttu sinni gegn búðarhnupli. „Við erum að læra af reynslunni og tæknin verður sífellt betri,“ segir Stefán.
Stefán Árnason IKEA hefur náð verulegum árangri í baráttu sinni gegn búðarhnupli. „Við erum að læra af reynslunni og tæknin verður sífellt betri,“ segir Stefán.

Mynd: Þormar Vignir Gunnarsson

Skjót afgreiðsla vekur spurningar

Umræðan um afgreiðslu lögreglu er eitthvað sem Stefán tengir sterkt við. Hann nefnir sem dæmi að þann 10. janúar síðastliðinn hafi maður verið stöðvaður við útgang verslunarinnar fyrir þjófnað. Með í för var eiginkona mannsins sem að sögn Stefáns er reglulega í fjölmiðlum. „Við áttum myndefni af brotinu og þarna er um borðleggjandi mál að ræða,“ segir Stefán og bætir við að lögreglumenn sem komið hafi í vettvang hafi verið sama sinnis.

Föstudaginn 15. janúar skrifaði Stefán kæru til lögreglu og lét fylgja með myndefni sem sannar þjófnaðinn. Bréfið var boðsent um kl. 14 þennan dag til lögreglu. „Þann 19. janúar fæ ég bréf sem er dagsett 15. janúar. Niðurstaðan er sú að hinn meinti þjófur sé sekur um refsivert hátterni en engu að síður er fallið frá málsókn. Þessi niðurstaða liggur fyrir á tæpum tveimur klukkustundum á föstudeginum. Ég fagna þessum afgreiðsluhraða en ég furða mig á niðurstöðunni,“ segir Stefán, sem helst vildi sjá þjófnaðarmál, þar sem óyggjandi sannanir liggja fyrir, fá skjóta formlega afgreiðslu hjá yfirvöldum. „Það gengur ekki að niðurstaða mála sé háð duttlungum lögreglumanna,“ segir Stefán ákveðinn. Hann hefur óskað eftir rökstuðningi vegna ákvörðunarinnar.

Freistingar fjarlægðar

IKEA hefur tekið fast á sínum öryggismálum. Meðal annars voru reglur varðandi vöruskil hertar sem skilaði þeim árangri að rýrnun minnkaði um helming. Þá tók verslunin nýlega upp skilaeftirlit sem þegar hefur orðið til þess að einn viðskiptavinur má ekki lengur skila vörum hjá versluninni. „Sá skilaði ítrekað sömu vörunni, litlum og frekar dýrum díóðuljósum. Starfsmaður okkar gekk á þennan tiltekna viðskiptavin sem gat ekki gefið neinar skýringar á athæfi sínu og yfirgaf verslunina án þess að hirða um að taka með sér ljósin sem ætlunin var að skila,“ segir Stefán.

Aðspurður út í sjálfsafgreiðslukassana, þar sem blaðamaður varð vitni af þjófnaði, segir Stefán: „Reynslan að utan var sú að rýrnun þar væri jafnmikil og á hefðbundnum búðarkössum enda gera starfsmenn óafvitandi mistök. Það er alltaf starfsmaður á vakt að fylgjast með kössunum sem og öryggisvörður auk þess sem myndavélar eru við hvern kassa. Þrátt fyrir það þá láta sumir freistast,“ segir Stefán.

Um hundrað myndavélar eru á víð og dreif um húsnæði IKEA við Kauptún.
Öryggisherbergi Um hundrað myndavélar eru á víð og dreif um húsnæði IKEA við Kauptún.

Mynd: Þormar Vignir Gunnarsson

45 í ævilöngu banni

Viðurlög IKEA við búðarhnupli eru ströng og ef til vill ekki á allra vitorði. „Lögregla hvetur verslanir til þess að kæra allan þjófnað og það gerum við samviskusamlega,“ segir Stefán. Allnokkur mál hafi farið fyrir dómstóla og endað með dómi þrátt að stjórnendur verslunarinnar hafi oft rekið sig á að málum sé vísað frá. IKEA er hins vegar með eina ófrávíkjanlega reglu varðandi þjófnað. „Þeir sem verða uppvísir að þjófnaði hjá okkur fá ævilangt bann í versluninni okkar,“ segir Stefán og upplýsir blaðamann um að 45 Íslendingar séu í ævilöngu banni frá verslun IKEA hérlendis. „Það kemur reglulega upp að einstaklingar, sem hafa gerst sekir um búðarhnupl í versluninni, heimsækja okkur eins og ekkert hafi í skorist. Ef við verðum varir við þessa einstaklinga þá er þeim einfaldlega vísað út úr versluninni enda ekki velkomnir hér. Suma þekkjum við strax og þá er þeim mætt í dyrunum,“ segir Stefán.

Skjáskot úr öryggismyndavél IKEA

„Stólamálið“ fræga

Gerendur tengdir fjölskylduböndum

Fyrir tveimur árum var „Stólamálið“ svokallaða á allra vörum. Það snerist um umfangsmikinn þjófnað úr verslun IKEA. Þegar málið komst upp var talið að það hefði staðið yfir, með hléum, í sex ár og orðið sífellt viðameira eftir því sem á leið. Meðal grunuðu voru lögfræðingar, eigandi lögfræðistofu, framkvæmdastjóri fyrirtækis í ferðaþjónustu og hjúkrunarfræðingur. Gerendurnir tengdust í flestum tilvikum fjölskylduböndum.Upp komst um málið í nóvember 2011 þegar starfsmaður í húsgagnadeild tilkynnti öryggisdeild um ranga birgðastöðu á tiltekinni tegund stóla. Fjórum slíkum stólum hafði verið skilað þótt enginn hefði verið seldur. Þá lögðust starfsmenn IKEA yfir skilasögu viðkomandi einstaklinga og höfðu þeir þá allir skilað mjög dýrum vörum sem aldrei eða sjaldan höfðu verið seldar.Málinu lauk með því að gerendurnir borguðu 600 þúsund króna kröfu IKEA og sluppu með skrekkinn. „Krafan var í raun alltof lág,“ segir Stefán sem skýtur á að andvirði þýfisins hafi verið um 10 milljónir yfir langt tímabil. Eitt par fékk 30 daga skilorðsbundinn dóm vegna málsins.

Í síðustu viku fjallaði DV um búðarhnupl og þar sagði Lárus M. K. Ólafsson, lögfræðingur Samtaka verslunar og þjónustu, að pottur væri brotinn varðandi bótakröfur fyrirtækja fyrir dómstólum. Tímafrekt og flókið mál sé að fara fram á slíkar bætur og einfalda þurfi ferlið verulega. Stefán tekur undir þetta og segir að hann muni aðeins eftir tveimur málum þar sem IKEA hafi fengið greiddar bætur vegna þjófnaðar. „Í fyrra skiptið var um að ræða 600 þúsund króna bætur vegna „Stólamálsins“ fræga sem vakti mikla athygli í fjölmiðlum. Miðað við umfang brotanna var bótakrafan í raun alltof lág,“ segir Stefán.

Í síðara skiptið kom maður inn af götunni, af fúsum og frjálsum vilja, og viðurkenndi brot sín. „Hann sagðist hafa verið í óreglu en náð að snúa blaðinu við og vildi gera upp skuldir sínar,“ segir Stefán. Vel var tekið á móti manninum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fordæmalaus staða gæti komið upp á gosstöðvunum á Reykjanesskaga – „Þetta er fyrsta skiptið sem við sjáum svona“

Fordæmalaus staða gæti komið upp á gosstöðvunum á Reykjanesskaga – „Þetta er fyrsta skiptið sem við sjáum svona“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Yfirmaður úkraínsku leyniþjónustunnar er með áætlun tilbúna til að mæta yfirvofandi stórsókn Rússa

Yfirmaður úkraínsku leyniþjónustunnar er með áætlun tilbúna til að mæta yfirvofandi stórsókn Rússa
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sigur hjá Harvey Weinstein: Dómi gegn honum í New York snúið við

Sigur hjá Harvey Weinstein: Dómi gegn honum í New York snúið við
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sendiherra Trump á Íslandi þykist vera kúreki í kosningabaráttu sinni – „Það er ekki hægt að skálda þetta“

Sendiherra Trump á Íslandi þykist vera kúreki í kosningabaráttu sinni – „Það er ekki hægt að skálda þetta“